Maí
  • Álver í Reyðarfirði

Alcoa með kynningarfund á Hótel Höfn

Fjölmörg viðskiptatækifæri skapast fyrir iðn- og þjónustufyrirtæki

Áformað er að bjóða út margvíslega stoðþjónustu í tengslum við rekstur álvers Alcoa Fjarðaáls í Fjarðabyggð og munu þannig skapast fjölmörg viðskiptatækifæri fyrir iðn- og þjónustufyrirtæki. Stefnt er að því að fyrstu útboðin fari fram fyrir lok þessa árs en gera má ráð fyrir að viðskiptin muni hlaupa á milljörðum árlega eftir að starfsemi álversins kemst á fullan gang. Markmið Alcoa Fjarðaáls með útboðum á stoðþjónustu er m.a. að stuðla að frekari uppbyggingu atvinnurekstrar á Austurlandi og þar með að langvarandi vexti og viðgangi svæðisins í heild. Alls er um að ræða yfir 50 aðgreind viðskiptatækifæri sem spanna mjög vítt svið iðnaðar, tækni- og sérfræðiþjónustu af margvíslegu tagi. Sem dæmi má nefna að áformað er að bjóða út hafnarstarfsemi, birgðahald, tölvu- og verkfræðiþjónustu, þjónustu á sviði umhverfismála og margvíslegt viðhald og viðgerðir.

Mestur hluti þjónustunnar verður boðinn út árið 2006 en útboðsaðferðir verða nokkuð mismunandi eftir eðli og umfangi hennar. Allir bjóðendur verða að uppfylla tilteknar kröfur sem eru þær sömu og fyrirtæki Alcoa-samstæðunnar gera hvar sem er í heiminum og ná m.a. til vinnuöryggis- og umhverfismála.

Með því að bjóða út stoðþjónustuna vill Alcoa Fjarðaál nýta þá þekkingu, reynslu og verkkunnáttu sem önnur fyrirtæki búa yfir og stuðla að fjölbreyttri uppbyggingu atvinnurekstrar á Austurlandi. Á móti mun fyrirtækið einbeita sér að kjarnastarfseminni, þ.e. álframleiðslu. Þannig vill fyrirtækið stuðla að frekari vexti og viðgangi Austurlands sem atvinnu- og búsetusvæðis og skapa jákvæða samkeppni um vinnuafl. Áhersla verður lögð á að semja við fyrirtæki sem hafa starfsemi á Austurlandi, svo fremi þau uppfylli allar kröfur sem gerðar eru til bjóðenda og séu samkeppnishæf.

Föstudaginn 6.maí n.k. kl.14 munu forráðamenn Alcoa Fjarðaáls halda kynningarfundi á Hótel Höfn þar sem þeir munu kynna viðskiptatækifærin. Á fundunum munu fulltrúar Alcoa Fjarðaáls fjalla í almennum atriðum um tegundir þjónustu sem áformað er að kaupa, útboðsaðferðir, kröfur til væntanlegra bjóðenda, viðmið við val á tilboðum og tímaramma. Einnig verður skýrt hvernig og hvenær hægt verður að nálgast ítarlegri upplýsingar um tilhögun þjónustukaupa á vegum fyrirtækisins.


 
Fréttir


TungumálÚtlit síðu:

Brúin yfir Kotá hækkuð Lögreglan á Höfn við eftirlitsstörf Heimir Þór þurrkar fjallagrös Frá brunanum í Akurey (úr myndasafni)