Fréttir

Frétt frá opnun gönguleiðarinnar Breiðármörk

26.6.2015 Fréttir

Mynd 1 af 3
1 2 3

Mikil uppbygging er í ferðaþjónustu í Sveitarfélaginu Hornafirði og er nú jafnt unnið að því að auka afþreyingu á svæðinu sem og aðra þjónustu við ferðamenn. Liður í því er að byggja heildstæða gönguleið í sveitarfélaginu og síðastliðinn miðvikudag kom Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra í heimsókn til okkar og vígði gönguleiðina Breiðármörk sem er fyrsti hluti Jöklastígsins svokallaða.

Gönguleiðin liggur á milli þriggja jökullóna, Jökulsárlóns, Breiðárlóns og Fjallsárlóns og er hún fær flestum. Hægt er að byrja gönguna bæði frá Fjallsárlóni og Jökulsárlóni og er leiðin er um 15 km löng. Á leiðinni er að finna upplýsingar um gróðurfar, fuglalíf, og ekki síst sambýli manns og jökuls sem frá upphafi búsetu hefur einkennt ríki Vatnajökuls. Fengu opnunargestir að kynnast þeirri sögu betur að athöfn lokinni, en þá var boðið upp á veglegt hlaðborð í Þórbergssetri þar sem fylgdi með lífleg frásögn Þorbjargar Arnórsdóttur af jöklaferðum fyrr og nú.

Verkefnið var unnið í mikilli samvinnu aðila á svæðinu þar sem hafa sameinast fagaðilar á hinum ýmsu sviðum, t.d. við textagerð, skiltagerð, jarðvinnu og sleggjuköst svo fátt eitt sé nefnt. Erum við Hornfirðingar svo rík að geta sótt í slíkan þekkingarbrunn hjá Þekkingarsetrinu Nýheimum þar sem margar og mismunandi stofnanir vinna saman að því að efla samfélagið okkar. Færir sveitarfélagið Ríki Vatnajökuls, Náttúrustofu Suðausturlands, Hornafjarðarsöfnum, Vatnajökulsþjóðgarði og öðrum sem lögðu hönd á plóg bestu þakkir fyrir. Má þar sérstaklega nefna Rannveigu Einarsdóttur sem mótaði verkefnið í upphafi og vann að skiltagerð og Einar Björn Einarsson sem lagði til gröfuvinnu við að koma skiltunum í jörðu.

Ekki væri unnt að halda í slíka framkvæmd án fjármagns og hefur verkefnið verið ríkulega styrkt af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem og Vinum Vatnajökuls, enda felur verkefnið allt í senn í sér náttúruvernd, vistvæna afþreyingarmöguleika, nánari þekkingu á náttúrunni og einnig hinu samfélagslega umhverfi. Fengum við góða gesti frá styrkveitendum til okkar, en það voru þau Kristbjörg Stella Hjaltadóttir framkvæmdastjóri Vina Vatnajökuls og Björn Jóhannsson umhverfisstjóri hjá Ferðamálastofu. Gaman er að segja frá því að annar leggur Jöklastígsins sem er á Mýrunum er vel á veg komin, en er sú leið einnig styrkt með fjárframlagi úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Ríki Vatnajökuls hefur með styrk frá Vinum Vatnajökuls gefið út gönguleiðakort fyrir leiðina og er það fáanlegt bæði í Gestastofu Vatnajökuls í Gömlubúð og í Skaftfelli. Mun sambærilegt kort einnig koma út fyrir nýjar gönguleiðir á Jöklastígnum.

Hvetjum við alla sem eiga þess kost að ganga þessa fallegu leið,  sem er einungis byrjunin á þeirri vegferð sem Jöklastígurinn er.

 

Árdís Erna Halldórsdóttir

Atvinnu- og ferðamálafulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar

Myndir Helga Árnadóttir

 

Senda grein

 
Fréttir


TungumálÚtlit síðu:

Brúin yfir Kotá hækkuð Lögreglan á Höfn við eftirlitsstörf Heimir Þór þurrkar fjallagrös Frá brunanum í Akurey (úr myndasafni)