Fréttir

Bók um Hákon Finnsson í Borgum

17.8.2016 Fréttir

Út er komin bókin Hákon Finnsson – frá Brekkum á Rangárvöllum að Borgum í Hornafirði.

Segir þar frá lífshlaupi manns sem fæddist þjóðhátíðarárið 1874 en ólst upp á sveitinni eftir að jörð foreldranna fór í eyði af völdum sandfoks og fjölskyldan sundraðist.

Fyrsti hluti bókarinnar er áður óbirt sjálfsævisaga sem Hákon lauk að rita ríflega þrítugur að aldri. Sögusviðið eru ýmsir bæir á Rangárvöllum og lýsir Hákon uppvaxtarárum sínum þar með þeim hætti að auðvelt er fyrir lesandann að setja sig í spor sögumanns. Snilldarlega rituð samtímalýsing sem lýsir kröppum kjörum og vinnuhörku. Síðar lá leiðin til Reykjavíkur og áfram norður í land því 22ja ára hóf Hákon nám við Gagnfræðaskólann á Möðruvöllum. Að náminu loknu hélt hann austur á Hérað og gerðist þar um hríð kennari, organisti og kórstjóri auk þess að sinna ýmsum tilfallandi störfum.

Æskudraumurinn var samt að gerast bóndi og ráða sér sjálfur. Nýlega kvæntur Ingiríði Guðmundsdóttur fengu hjónin leiguábúð á Arnhólsstöðum í Skriðdal. Þegar Hákon frétti að Borgir í Hornafirði væru til sölu gekk hann suður í Nes og festi kaup á jörðinni. Miðhluti bókarinnar lýsir uppbyggingunni í Borgum en síðasti hlutinn fjallar nánar um lífshlaup og störf Hákonar.

Bókin er 156 bls., litprentuð og bundin í harða kápu, prýdd 84 myndum og fjölda rammagreina.

Útgefendur eru Karl Skírnisson (karlsk@hi.is, s. 848 1199, Víðihvammi 3, 200 Kópavogi) og Hákon Hansson (hih@eldhorn.is  s. 862 4348, Ásvegi 31, 760 Breiðdalsvík) og sjá þeir frændur um afgreiðslu bókarinnar um afa sinn. Verð ritsins er kr. 5000,- Bankaupplýsingar eru 0537-14-123045, kt. 080653-5069.

Haldin verður útgáfuhátíð í Borgum 20. ágúst klukkan 15. Þar munu þeir Hákon Ingvi og Karl segja lítillega frá tilurð bókarinnar. Hægt verður að kaupa bókina á staðnum. Allir eru hjartanlegar velkomnir í Borgir á þessa útgáfuhátíð.

Senda grein

 
Fréttir


TungumálÚtlit síðu:

Brúin yfir Kotá hækkuð Lögreglan á Höfn við eftirlitsstörf Heimir Þór þurrkar fjallagrös Frá brunanum í Akurey (úr myndasafni)