Frelsi - Metnaður - Virðing - Jákvæðni - Vinátta
Grænfáninn við hún
Mynd 1 af 5
1 2 3 4 5

Grænfánanum flaggað í fyrsta skipti við Grunnskóla Hornafjarðar

08.05.2014

Grunnskóli Hornafjarðar hefur um nokkurt skeið verið þátttakandi í alþjóðlegu verkefni sem stuðlar að aukinni umhverfismennt í skólum. Í dag náðist sá skemmtilegi áfangi að skólinn fékk afhentan grænfánann en hann er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og  umhverfisstefnu í skólum. Umhverfisteymi skólans sem er skipað nemendum og starfsfólki skólans hefur á síðustu dögum lagt lokahönd á margþætta vinnu sína, m.a. með gerð og samþykkt umhverfisstefnu skólans, verkefnum sem snúa að fræðslu um flokkun, endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs og þátttöku í verkefni Náttúrustofu Suðausturlands um gerð náttúrustígs.

Fulltrúi Landverndar sem hefur umsjón með verkefninu, kom í skólann fyrir páska og gerði úttekt á umhverfisvinnunni. Grunnskóli Hornafjarðar stóðst úttektina með glæsibrag og fulltrúar Landverndar á heimaslóðum þau Kristín Hermansdóttir frá Náttúrustofu Suðausturlands og Þorvarður Árnason frá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Hornafirði afhentu fánann í dag og drógu nemendur úr umhverfisteyminu hann að húni. Umhverfisdagur skólans var valinn til að flagga fánanum og er það vel við hæfi því nemendur skólans höfðu um morguninn farið um allan bæ og unnið að hreinsun hans með góðum árangri.

Nemendur úr umhverfisteymi skólans munu verða með kynningu á grænfánavinnu grunnskólans á föstudagshádegi í Nýheimum á morgun, föstudaginn 9. maí kl.12:15. Bæjarbúar og aðrir eru hvattir til að mæta þar og hlýða á fræðsluerindi þeirra.  

Nánar er hægt að fræðast um umhverfisvinnuna í grunnskólanum á heimasíðu skólans.

Hér er einnig að finna ræðu sem Salvör Dalla Hjaltadóttir fulltrúi umhverfisteymisins flutti við afhendingu fánans.


Senda grein

 

Fréttasafn


TungumálÚtlit síðu: