Um skólann

Um skólann

 

Grunnskóli Hornafjarðar var stofnaður árið 2007 við sameiningu Nesjaskóla, Hafnarskóla og Heppuskóla. Til að byrja með starfaði hann í gömlu húsunum en árið 2009 var starfsstöðvum fækkað í tvær Hafnar- og Heppuskóla og áttu miklar endurbætur sér stað á báðum húsunum. Í Grunnskóla Hornafjarðar stunda nám nemendur úr Austur Skaftafellssýslu fyrir utan nemendur á yngra og miðstigi í Öræfum sem stunda námi í Grunnskólanum Hofgarði.

Stjórn skólans er skipuð skólastjóra og tveimur aðstoðarskólastjórum sem sipta með sér verkum í faglegum málum en sjá um daglegan rekstur á sitt hvoru skólastiginu. 

Húsnæði skólans dreifist töluvert. Í Hafnarskóla eru nemendur í 1. - 6. bekk auk matsalar fyrir alla nemendur skólans. Í Heppuskóla eru nemendur í 7. - 10. bekk auk heimilsfræðistofu fyrir alla nemendur. Í Vöruhúsinu eru kenndar greinar eins og textíl, smíðar og myndmennt en þar sem Vöruhúsið er einnig miðstöð skapandi greina með FabLab smiðju og félagsmiðstöð þá tengist það gjarnan kennslu í ýmsum greinum.  Í lausum kennslustofum við Hafnarskóla er heilsdagsvistunin Kátakot til húsa og að sjálfsögðu sækja nemendur íþróttir í íþróttahús og sundlaug bæjarins.

Markmiðið með sameiningu skólanna var fyrst og fremst að bæta skólastarfið og ná meiri samfellu í námi og kennslu nemenda. Lögð var áhersla á að efla og treysta almenna fagþekkingu starfsfólks, að efla list- og verkgreinakennslu í skólanum, vinna eftir sameiginlegri uppeldisstefnu, leggja áherslu á heilsueflingu og virðingu við umhverfið og að efla frumkvöðlahugsun í skólanum.

Stefna skólans 

                                         Virðing – metnaður – vinátta – frelsi – jákvæðni

 

Þessi orð eru kjörorð skólans og marka grunninn að stefnu hans ásamt umhverfisvernd, heilsueflingu og námi við hæfi. Kjörorðin tengjast náið þeirri uppeldisstefnu sem skólinn vinnur eftir, Uppeldi til ábyrgðar en sú stefna gengur út á að öll hegðun okkar sé tilkomin vegna þess að við erum að reyna að uppfylla þarfir okkar. Samkvæmt Uppeldi til ábyrgðar eru grunnþarfirnar fimm og tengjast þær náið kjörorðunum. Virðing svarar til öryggisþarfarinnar, jákvæðni svarar til gleðiþarfarinnar, vinátta til umhyggjuþarfarinnar, frelsi til frelsisþarfarinnar og metnaður til áhrifaþarfarinnar.

Myndin hér fyrir neðan á að vera lýsandi fyrir það starf sem á sér stað í skólanum. Hér á eftir koma nánari útskýringar á því fyrir hvað áhersluþættir skólans standa og byrjað er á að útskýra nánar hvað kjörorðin fela í sér. Í næsta kafla er sérstaða skólans skilgreind.
Virðing. Í skólanum er lögð áhersla á að allir séu metnir að verðleikum og fái viðurkenningu á vinnu sinni og því sem þeir leggja sig fram við. Í skólanum er komið fram við alla af virðingu, kurteisi og réttlæti og lögð áhersla á að allir geti verið öruggir um að verða ekki fyrir ofbeldi eða áreiti og að unnið með það ef slíkt kemur upp.

Metnaður. Í skólanum er lögð áhersla á að allir geri sitt besta. Markið er sett hátt, allir hafa trú hver á öðrum, fólk styður hvert annað og þar ná allir góðum árangri. Lögð er áhersla á nám við hæfi og framfarir í samræmi við forsendur hvers og eins.

Vinátta. Í skólanum er lögð áhersla á og unnið með vináttu og umhyggju. Lögð er áhersla á kurteisi í samskiptum, að allir séu hlýlegir og leggi sig fram við að aðstoða hvern annan. Það hafa allir þörf fyrir vináttu og umhyggju og sömuleiðis hafa allir þörf fyrir að sýna vináttu og umhyggju.

Jákvæðni. Í skólanum er lögð áhersla á jákvætt viðhorf. Allir hafa val hverju svo sem þeir standa frammi fyrir í lífinu. Að velja að vera jákvæður er léttara og eykur líkurnar á lífshamingju. Lögð er áhersla á jákvætt og hlýlegt viðmót og að fólk geti verið glatt því glöðu fólki líður vel og það afkastar meiru.

Frelsi. Í skólanum er lögð áhersla á að hver einstaklingur hafi ákveðið frelsi og njóti réttinda sinna um leið og honum ber að sinna skyldum sínum og ganga ekki á frelsi annarra. Þannig tvinnast réttindi og skyldur órjúfanlega við frelsishugtakið.

 

Nám við hæfi

Í skólanum er lögð áhersla á einstaklingsmiðað nám.  Námsefni við hæfi er eitt af lykilatriðum í einstaklingsmiðun en þar er einnig lögð áhersla á námsstíl nemenda og mismunandi leiðir við að nálgast markmiðin. Það er misjafnt hvernig börn læra og því mikilvægt að gefa þeim færi á að nema á fleiri en einn hátt. Nám við hæfi stuðlar þannig að jafnrétti til náms.

 

Fjölbreyttar kennsluaðferðir

3. bekkur í ÖræfumÍ skólanum er lögð áhersla á fjölbreytta kennsluhætti. Val á kennsluaðferðum tekur mið af þeim námshópi sem unnið er með hverju sinni og reynt er að nota sem fjölbreyttastar kennsluaðferðir, því fjölbreytni í kennsluaðferðum og framsetning námsefnis vekur áhuga og athygli nemenda. Leitast er við að nemendur fái að kynnast sem flestu; einstaklingsvinnu, paravinnu og hópavinnu þar sem nemendur eru virkir þátttakendur í námi sínu. Leikurinn er er síðan grundvallarkennsluaðferð sem alltaf ber að nota þegar hægt er því í gegnum leikinn læra börnin oftast besti.

 

Jafnræði greina

Í skólanum er lögð áhersla á jafnræði greina þannig að jafnvægi sé á milli bóklegs náms og verklegs.  Eins og fram kemur í Aðalnámskrá grunnskóla þá hafa bæði hugur og hönd mikilvægu hlutverki að gegna í alhliða þroska nemenda, því skipta fjölbreyttar kennsluaðferðir miklu máli í öllum greinum og með því stuðlum við að því að ná fram sem flestum grunnþáttum aðalnámsskrár í almennu skólastarfi.

 

Heilbrigði og velferð á Höfn

Eins og talið hefur verið upp þá tengjast uppeldi til ábyrgðar, heilsueflandi skóli, umhverfisvænn skóli og grunnþættirnir sterkum böndum. Veturinn 2012 – 2013 fór töluverð vinna fram á meðal foreldra og starfsmanna við að skoða þessi tengsl og finna út úr því hvernig best væri að koma þeim til skila. Markmið hvers þáttar fyrir sig var skoðað og var niðurstaðan sú að grunnþáttunum sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi og jafnfétti væri vel sinnt innan uppeldis til ábyrgðar, heilsueflandi grunnskóla og umhverfisstefnu skólans og saman myndu þeir stuðla að heilbrigði og velferð á Höfn. Í framhaldi af þessari vinnu var ákveðið að setja þessa þrjá þætti undir sameiginlegt heiti sem er Heilbrigði og velferð. Hér á eftir er greint frá hverjum undirþætti fyrir sig.


Uppeldi til ábyrgðar

Um leið og Grunnskóli Hornafjarðar var stofnaður í ágúst 2007 hófst vinna í skólanum með uppeldi til ábyrgðar (restitution). Starfsfólk ákvað að leggja þá stefnu til grundvallar skóla­bragnum. Uppeldi til ábyrgðar gengur út á að við stjórnumst öll af fimm mismunandi þörfum: öryggisþörf, gleðiþörf, áhrifaþörf, umhyggjuþörf og frelsisþörf. Þarfirnar eru missterkar milli einstaklinga en flest af því sem við gerum gerum við til að uppfylla þessar þarfir okkar. Því er mikilvægt að starfsfólk þekki vel þarfirnar og geti unnið með þær.

Á hverju ári er lögð áhersla á að vinna með hlutverkin í öllum bekkjum og að hlutverk allra séu ljós, bæði nemenda og starfsmanna. Á sama hátt er lögð áhersla á að í hverjum bekk sé unninn bekkjarsáttmáli sem er samkomulag um samskipti í hverjum bekk. Bæði hlutverkin og bekkja­sáttmálar verða að vera sýnileg svo þau þjóni tilgangi sínum. Hlutverkin tengjast náið skóla­reglunum en þær eru unnar í tenglsum við uppeldi til ábyrgðar.

Í uppeldi til ábyrgðar er megináherslan þó á að hver og einn tileinki sér framkomu sem einkennir uppeldi til ábyrgðar, að hann líti inn á við. Þannig verður uppeldi til ábyrgðar meira það sem við erum heldur en það sem við segjum að við séum.

Reglulega eru haldin námskeið um uppeldi til ábyrgðar, bæði fyrir nýja starfsmenn og þá sem unnið hafa lengi með stefnuna.

Bent er á að gott getur verið fyrir kennara að vinna eftir sex vikna áætluninni í verkfærakistunni til að koma sér af stað. Einnig er minnt á að ætlast er til þess að allir umsjónar­kennarar fari í mitt hlutverk/þitt hlutverk með nemendum sínum og skýri þannig grunn skóla­reglnanna.

 

Heilsueflandi skóli

Lögð hefur verið áhersla á að vinna eftir stefnu um heilsueflandi grunnskóla bæði fyrir starfsfólk og nemendur og er þessi vinna unnin í samræmi við stefnu Landlæknisembættisins um heilsueflandi skóla. Þau verkefni sem eru innan heilsueflandi skóla snúa að; nemendum, mataræði og tannheilsu, hreyfingu og öryggi, lífsleikni, geðrækt, starfsfólki, heimili og nærsamfélagi.

Eins og sjá má af áhersluþáttunum fléttast nánast allt skólastarf inn í þessa þætti. Uppeldi til ábyrgðar tekur til að mynda bæði á forvörnum og geðrækt og þeirri ábyrgð sem fylgir því að eiga gott og heilbrigt líf og eiga í góðum samskiptum. Þar að auki hefur ýmislegt verið gert í skólanum til að efla heilbrigt líferni t.d. að bjóða upp á hollan mat, ávaxtabita, aðgengi að góðu vatni, aðstöðu til hreyfinga og útveru í frímínútum, lögbundna íþrótta og sundkennslu auk viðbótar hreyfistundar í 1. bekk, umsjónarkennarar eru hvattir til að fara út með nemendur einu sinni í viku í auka hreyfingu og leiki, að hægt sé að velja meiri hreyfingu í vali á unglingastigi og ýmislegt fleira. Sérstaða skólans sem nánar er fjallaðu um hér á eftir snýr líka að hluta til að heilsueflingu með miklum vettvangsferðum, starfskynningum, listnámi og fleiru.

 

Umhverfisvænn skóli sem flaggar grænfánanum

Haustið 2007 varð Grunnskóli Hornafjarðar „Skóli á grænni grein“ og er það fyrsta skrefið í því að verða Grænfánaskóli. Á vordögum 2014 var Grænfáninn dreginn að húni við Hafnarskóla og skólinn þar með orðinn Grænfánaskóli. 

Sjálfbærni og umhverfisvernd tengist náið bæði heilsueflingu og uppeldi til ábyrgðar. Það að bera ábyrgð á því hvernig maður lifir á jörðinni og hvernig maður umgengst hana t.d. með því að ganga frekar en nota bíl er dæmi um slíka tengingu. Í skólanum er lögð áhersla á að tengja heilsueflingu, uppeldi til ábyrgðar og umhverfisstefnuna og í stað þess að vera með þrjú misjöfn teymi að vera með eitt teymi sem tengir þessa þætti saman.


Grunnþættir menntunar og tengsl við stefnu skólans

Í Aðalnámskrá grunnskóla, almennum hluta frá 2011 er kveðið á um sex grunnþætti menntunar sem skulu vera leiðarljós í almennri menntun og starfsháttum skóla. Þessir grunnþættir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Í Grunnskóla Hornafjarðar var þessum grunnþáttum fagnað því þeir styðja við stefnu skólans og efla starfsfólk í að vinna með þá þætti sem móta grunninn að skólabragnum. Þættir eins og uppeldi til ábyrgðar, heilsueflandi grunnskóli og umhverfisstefna skólans taka vel á heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindum, sjálfbærni og jafnrétti. Grunnþættirnir styðja þannig við stefnu skólans og mikilvægt að vinna henni áfram brautargengi. Sköpunarþátturinn og læsisþátturinn njóta sín líka innan stefnu skólans en þeim er þó gert sérstaklega hátt undir höfði í einstaka greinum.

Læsi er sá grunnþáttur sem tekist er á við allstaðar í skólastarfinu bæði á hefðbundinn hátt með því að kenna lestur en einnig á víðtækari veg með efla læsi nemenda á umhverfi sitt og færni þeirra í að túlka bæði það sem lesið er en einnig aðra þætti í námi og umhverfi.

Sköpun tengist öllu skólastarfi á sama hátt og læsi. Auk þess að vera sérstakt viðfangsefni í  list- og verkgreinum byggir afrakstur af vinnu nemenda í flestum greinum gjarnan á sköpunarþættinum. Þá nota nemendur þá leikni, færni og hæfni til að túlka og skapa sína sýn á viðfangsefnið.

Heilbrigði og velferð er mikilvægur hluti af skólastarfinu og kristallast sérstaklega í því að skólinn er heilsueflandi skóli þar sem mikil áhersla er lögð á að styrkja bæði andlegt og líkamlegt atgerfi nemenda. Uppeldistefna skólans miðar einnig fyrst og fremst að því að efla andlegan styrk nemenda og ábyrgð þeirra á eigin velferð. Þannig styður hún við þennan grunnþátt en einnig er þar lögð áhersla á að nemendur þjálfist í lýðræðislegum vinnubrögðum og að jafnrétti og mannúð sé samofin öllu skólastarfi. Þannig tengist heilsueflandi skóli og uppeldi til ábyrgðar heilbrigði og velferð órjúfanlegum böndum auk grunnþáttanna jafnréttis og lýðræðis og mannréttinda.  

Sjálfbærni er sá grunnþáttur sem er hvað víðtækastur og í raun er hægt að segja að allir hinir grunnþættirnir felist í honum. Grunnurinn að sjálfbærni felst í tryggja áframhaldandi velferð alls lífs á jörðinni og að við skilum henni frá okkur í betra ásigkomulagi en við tókum við henni. Þannig byggir sjálfbærni á félagslegu og efnahagslegu réttlæti þó grunnþátturinn felist í umhverfisvernd. Í skólanum er lögð áhersla á virðingu fyrir umhverfinu og margskonar umhverfismennt.

 

Sérstaða skólans

Sérstaða skólans markast af staðsetningu hans og því fjölbreytta og um leið fágæta umhverfi sem hann er í. Sveitarfélagið sem skólinn þjónar er víðfeðmt en tiltölulega fámennt með rúmlega 2000 íbúa. Íbúar sveitarfélagsins hafa vanist því í gegnum aldirnar að bjarga sér sjálfir því langt er í næstu þéttbýlisstaði og samgöngur oft erfiðar þó vissulega hafi þar orðið miklar breytingar síðustu áratugi. Höfuðatvinnugreinar sveitarfélagsins byggja á tengslum við náttúruna, annars vegar í gegnum landbúnað og sjávarútveg en hins vegar í gegnum ferðamannaiðnað.  Náttúran er líka drifkraftur í öflugu menningar- og listalífi sem veitir listamönnum innblástur til einstakrar vinnu.

Á þessum þáttum byggir sérstaða skólans. Þar er lögð mikil áhersla á tengslin við náttúruna í allri sýslunni og leyfa nemendum að njóta hennar og fræðast um hana um leið og sterk tengsl við samfélagið eru sá drifkraftur sem skólinn byggir á. Nemendur skólans fara í skipulagðar ferðir vítt og breitt um sýsluna svo þeir fái að kynnast sem flestum svæðum innan hennar. Ferðirnar eru nýttar markvisst í námi nemenda og tekur sú vinna mið af aldri og þroska þeirra.


 

Nemendur kynnast helstu atvinnuvegum í samfélaginu bæði gegnum námið í skólanum og einnig með vettvangsferðum á sveitabæi og í ýmis fyrirtæki og stofnanir. Starfskynningar eru fyrir nemendur í 10. bekk þar sem flest fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu eru boðin og búin að taka við nemendum, kynna þeim starfsemi sína og leyfa þeim að taka þátt í vinnunni.  

Áhersla er lögð á list- og verknám í skólanum með sérstökum þunga á nýsköpun og frumkvöðlastarf.  


 

TungumálÚtlit síðu: