Fréttir HSSA
Matthildur Ásmundardóttir
Matthildur Ásmundardóttir framkvæmdastjóru HSU Hornafirði

14.01.2016

Áramótapistill framkvæmdastjóra

Gleðilegt nýtt ár kæru Hornfirðingar með þökk fyrir liðin ár. Ég hef skrifað stuttan annál undanfarin ár til að fjalla um þau málefni sem heyra undir heilbrigðisþjónustu á Hornafirði og held þeirri hefð áfram. 

Það er óhætt að segja að nýliðið ár hafi verið okkur ansi þungt. Þetta hefur verið ár mikilla breytinga en nú erum við hluti af Heilbrigðisstofnun Suðurlands. HSU Hornafirði er þó enn með sérstöðu hvað það varðar vegna þjónustusamnings sem við störfum samkvæmt. Samningurinn kveður á um að Sveitarfélagið Hornafjörður ber ábyrgð á rekstri á allri heilbrigðisþjónustunni. Fyrirkomulagið hefur verið við gildi í 20 ár á þessu ári og hefur árangurinn verið góður öll þessi ár. Ábyrgðaraðili samningsins er nú HSU. Sameining hefur enn sem komið er litlu breytt hér á Hornafirði, stjórnendur hafa sótt stjórnendafundi í tvígang á Selfoss ásamt því að stjórnendur HSU hafa komið til okkar. Einnig hafa ýmis samlegðaráhrif verið skoðuð án teljandi aðgerða. Árið 2016 verður notað til að endurskoða núverandi þjónustusamning með það að markmiði að endurnýja hann en mikill vilji er hjá bæjarstjórn til að endurnýja samninginn. Sjúkratryggingar Íslands halda utan um úttekt á samningnum og vonast er til þess að henni ljúki fljótlega. 

Það má segja að árið 2015 hafi verið ár slysa en mikil fjölgun hefur verið á útköllum sjúkrabifreiða vegna slysa í umdæminu. Töluvert hefur verið um alvarleg slys þar sem mikinn mannskap þarf til en efst í minni fólks er umferðaslys milli hátíða rétt austan við Hnappavelli. Ferðamenn eru nú stór hluti þjónustuþega í heilbrigðisþjónustunni og bendir tölfræðin til þess að á öllu Suðurlandi hafi þrisvar sinnum fleiri ferðamenn slasast fyrstu 9 mánuði ársins 2015 miðað við árið 2014 samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Við höfum svo sannarlega fundið fyrir þessu en fjöldi útkalla vegna sjúkraflutninga milli ára hér á Hornafirði hefur aukist um 44% eða farið úr 126 árið 2014 í 181 á árinu 2015. Athyglisvert er einnig að skoða fjölgun útkalla frá árinu 2012-2015 en þá er fjölgunin 99%. Á sama tíma erum við með sama mannskap og sama fjármagn. Fyrir næsta sumar væri ákjósanlegt að fjölga í hópi starfsmanna við sjúkraflutninga og á heilsugæslu en til þess skortir fjármagn. Við munum því þrýsta á um að aukið fjármagn verði lagt í sjúkraflutninga og afleysingamönnun í framtíðinni. 

Það er fleira sem stendur upp úr á árinu. HSU Hornafirði stóð fyrir áhugaverðu málþingi sem bar heitið öldrun og heilbrigði. Það tókst að fá spennandi fyrirlesara sem fjölluðu um málefnið frá ýmsum sjónarhornum. Niðurstaða þingsins var sú að eldra fólk eru ört stækkandi þjóðfélagshópur og er mun hraustari hópur en var hér áður. Mikilvægt er að gera ráð fyrir þessum hópi í skipulagi samfélaga og í skipulagi heilbrigðisþjónustu. Lykilþáttur þar er að fólk haldi sér líkamlega- og félagslega virku sem lengst til að viðhalda sjálfsbjargargetu sinni með það að markmiði að geta búið heima sem lengst. 

Flugslysaæfing var haldin í lok 24. október. Æfingin er haldin ekki sjaldnar en á fjögurra ára fresti og ber Isavia ábyrgð á framkvæmdinni. HSU Hornafirði tók þátt að vanda en um 30 starfsmenn tóku þátt. Um er að ræða sjúkraflutningamenn, lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og ófaglærða. Mikilvægt er að sem flestir taki þátt í æfingu sem þessari með það markmið að starfsfólk sé í stakk búið til að takast á við slys sem þessi. Æfingin heppnaðist í alla staði vel og var samstarf milli björgunaraðila mjög gott. 

Nýtt hjúkrunarheimili er enn ekki á áætlun hjá ríkinu þegar kemur að uppbyggingu nýrra hjúkrunarheimila þrátt fyrir áralanga baráttu fyrir stækkun. Viðmiðum er ekki fullnægt og má segja að mannréttindi séu brotin á hverjum degi. Framkvæmdasjóður aldraðra samþykkti þó viðbyggingu á sólskála í vestur enda hjúkrunarheimilisins og með því er hægt að fjölga einbýlum um 2 á heimilinu. Einnig er gaman að segja frá því að í lok desember samþykkti Heilbrigðis- og öldrunarnefnd að hjúkrunarheimilið muni heita Skjólgarður á ný, íbúar búa því á Skjólgarði í dag. 

Gjafmildir Hornafirðingar. Gjafir hafa streymt til stofnunarinnar á árinu 2015. Gjafa- og minningasjóður er sterkur bakhjarl en sjóðurinn gaf á árinu nýtt blóðrannsóknartæki og fjölgar þá rannsóknum sem hægt er að framkvæma hér heima. Einnig gaf sjóðurinn pökkunartæki fyrir sótthreinsuð áhöld. Hirðingjarnir standa þétt við bak hjúkrunarheimilisins en þeir hafa gefið marga nytsamlega hluti, má þar nefna nýjan skenk í stofuna á Skjólgarði og skrautmuni. Hirðingjarnir gáfu einnig sjónvarp í dagdvöl aldraðra og í lok árs tóku Kiwanis klúbburinn Ós og Hirðingjarnir sig saman um að kaupa nýtt sjónvarp í Mjallhvít, dvalarheimili. Undir lok árs hafði 4x4 klúbbur Hornfirðinga frumkvæði að því að hefja söfnun fyrir þríhjóli. Þríhjólið er notað til að hjóla með íbúa Skjólgarðs og Mjallhvítar úti við. Ættingjar, starfsfólk eða aðrir geta í framhaldinu boðið sig fram í að hjóla með íbúa úti í náttúrunni. Vonandi verður hægt að kaupa hjólið fljótlega á þessu ári. Lionsklúbbur Hornafjarðar gaf Skjólgarði píanó rétt fyrir jól sem hefur nú þegar sannað gildi sitt. Að lokum er ánægjulegt að segja frá því að nýtt ómtæki er komið á heilsugæsluna en það var fjármagnað með gjafafé en það voru Hollvinasamtök við stofnunina sem stóðu fyrir þeirri söfnun. Betur verður sagt frá því síðar. 

Á árinu 2015 rafvæddist heilbrigðisþjónustan enn meira. Nýr sjúklingavefur var virkjaður hér á Hornafirði „Heilsuvera.is“. Þar getur fólk skráð sig inn með rafrænum skilríkjum, bókað tíma hjá lækni eða endurnýjað lyfin sín án þess að taka upp símann. Ný vaktþjónusta tók einnig gildi en nú svarar Læknavaktin í Reykjavík símtölum utan opnunartíma heilsugæslunnar og beina símtölum rétta leið samkvæmt mati. Þó er alltaf nauðsynlegt að hringja í 112 í neyðartilfellum. 

Miklar kjaradeilur hafa verið á liðnu ári. Enn eru nokkrir samningar starfsmanna HSU Hornafirði lausir en vonast er til þess að samningar náist fljótlega í janúar. Starfsfólk er að fá töluverðar kjarabætur og er það mjög jákvætt. Starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar er lykilþáttur í starfseminni og vil ég nota tækifærið til þess að þakka starfsfólki fyrir gott samstarf á liðnum árum og ég hlakka til að takast á við áskoranir í starfseminni við ykkar hlið á árinu 2016. 

Matthildur Ásmundardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands Hornafirði.

Senda grein

Skrifa athugasemd

Til að fyrirbyggja ruslpóst:


 

Í neyðartilfellum hringið neyðarlínuna 112. Vaktsími læknavaktar eftir lokun skiptiborðs er 1700.

TungumálÚtlit síðu: