Útgáfa

Útgáfa

Héraðsögutímaritið Skaftfellingur hefur komið út síðar 1978. Ritnefnd Skaftfellings skipa: Zophonías Torfason ritstjóri (soffi@fas.is), Bryndís Hólmarsdóttir og Guðbjartur Össurarson.

Hægt er að panta Skaftfelling með því að senda póst á mmh@hornafjordur.is.

Fréttatilkynning um útgáfu 15. árgangs

Skaftfellingur kominn út
Fimmtándi árgangur héraðsritsins Skaftfellings er kominn út. Ritið er efnismeira en nokkru sinni fyrr og auk þess er tekin upp sú nýjung að prenta hluta af því í lit.

Skaftfellingur flytur að vanda fjölbreytt efni úr Austur-Skaftafellssýslu. Fyrri hluti þess er helgaður samtímanum og má þar nefna greinar um Þórbergssetur og Vatnajökulsþjóðgarð eftir Þorbjörgu Arnórsdóttur skólastjóra, Eyjólfur Guðmundsson skólameistari skrifar um Nýherjabúðir, Inga Jónsdóttir myndlistarmaður um Jöklasetur og Rannveig Ólafsdóttir forstöðumaður um Háskólasetur á Hornafirði.

Seinni hluti ritsins er með þjóð- og sagnfræðiblæ. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur skrifar um Borgarklett, Gunnþóra Gunnarsdóttir blaðamaður um fjármögnun mannvirkja á Skeiðarársandi, Sigurður Björnsson á Kvískerjum fjallar einnig um Skeiðarársand í tveimur greinum og segir þar að auki frá Eymundi Jónssyni frá Dilksnesi. Unnur Kristjánsdóttir frá Lambleiksstöðum segir frá hrakningum í Hornafjarðarfljótum og einnig rafstöðinni á Viðborði, Bjarni Jakobsson rafvirki gerir gömlu rafstöðinni í Skaftafelli skil og endurbyggingu hennar, Kristín Gísladóttir kennari segir frá hrakningum ungmenna á Skarðsfirði, og birt er brot úr endurminningum Jónínu Brunnan húsmóður frá uppvaxtarárum hennar í Hvamminum á Höfn. Formála skrifar Hermann Hansson formaður menningarmálanefndar Hornafjarðar.

Auk þessa efnis má nefna ljóð og ýmis styttri og lengri brot úr fórum Héraðsskjalasafns Austur-Skaftafellssýslu, ársskýrslu Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og greinar presta um látna Austur-Skaftfellinga.
Útgefandi Skaftfellings er Menningarmiðstöð Hornafjarðar, en ritnefnd skipa Sigurður Björnsson, Guðbjartur Össurarson og Zophonías Torfason sem jafnframt er ritstjóri.

Prentsmiðja Hornafjarðar annaðist umbrot og prentun.
Skaftfelling er hægt að fá bæði í áskrift og lausasölu hjá Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Nýheimum, 780 Höfn, sími: 470 8050, netfang: menningarmidstod@hornafjordur.is

Árið 1998 gaf Sýslusafn Austur-Skaftafellssýslu út Kvískerjabók. Tilefni þessarar bókarútgáfu er hið fjölþætta vísinda- og menningarstarf sem Kvískerjafólkið hefur unnið að og skapað með því héraðinu sérstakan sess. Það hvatti til útgáfunnar að á árinu 1997 áttu tveir Kvískerjabræðra merkisafmæli. Hálfdán varð sjötugur 14. mars og Sigurður áttræður 24. apríl. Auk þeirra tveggja er Helgi á lífi og búa bræðurnir á Kvískerjum. Látin eru Guðrún eldri, Guðrún yngri, Ari, Flosi, Ingimundur og Páll.
Foreldrar Kvískerjasystkina voru Björn Pálsson og Þrúður Aradóttir.
Ritnefndina Kvískerjabókar skipuðu: Björn Gísli Arnarson, Eiríkur Páll Jörundsson, Guðný Svavarsdóttir, Zophonías Torfason og Gísli Sverrir Árnason sem var ritstjóri.

Höfundar efnis í Kvískerjabók
Árni Björnsson þjóðháttafræðingur
Björn Gísli Arnarson safnvörður
Einar G. Jónsson sóknarprestur
Einar Þorleifsson landfræðingur
Erling Ólafsson skordýrafræðingur
Eyþór Einarsson grasafræðingur
Helgi Björnsson jöklafræðingur
Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur
Hjalti J. Guðmundsson landfræðingur
Hjálmar R. Bárðarson fv. siglingamálastjóri
Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur
Hörður Kristinsson grasafræðingur
Jóhann Óli Hilmarsson myndasmiður
Jón Baldur Hlíðberg teiknari
Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur
María Ingimarsdóttir líffræðinemi
Oddur Sigurðsson jarðfræðingur
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur
Páll Imsland jarðfræðingur
Ragnar Axelsson ljósmyndari
Sigurður Ármann Þráinsson líffræðingur
Sigurður Ægisson sóknarprestur
Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri
Þorsteinn Jóhannsson bóndi
Þórður Tómasson safnvörður
Þórunn Sigurðardóttir Stjórnandi Reykjavíkur - menningarborgar 2000.
Ævar Petersen forstöðumaður

Ávarp forseta Íslands, Ólafs Ragnas Grímssonar í Kvískerjabók
Saga okkar Íslendinga er á margan hátt líkust ævintýri. Í baráttu við óblíð náttúruöfl og erfið lífsskilyrði urðu bændasynir og heimasætur sigurvegarar í krafti vitsmuna sinna, hæfni og mannkosta. Sumir telja að frásagnir af afreksfólki til sveita séu goðsagnir sem þjóðin hafi smíðað til að réttlæta tilveru sína og amstur hér við nyrsta haf. Kvísker er táknstaður sem sannar að veruleikinn slær í takt við hjarta ævintýrisins. Umkringd töfrasölum íslenskrar náttúru gerðu systkinin á Kvískerjum bæinn að Mekka vísindamanna og fræðafólks víða að úr veröldinni. Þau sýndu með lífsverki sínu að íslenskt alþýðuheimili getur jafnast á við fremstu háskóladeildir. Rannsóknir bændanna á Kvískerjum, ritverk og frásagnir eru merkar heimildir um frumsköpun vísinda og þekkingar, dæmasafn um kraftbirtingu íslenskrar menningar eins og hún gerist best. Töfraheimur Íslands var vettvangur þeirra og viðfangsefni: Blóm í haga, fossar, fuglar og fjallgarðar, gosmenjar og gönguslóðir, jöklatign og hamfarir, mannvist og þjóðhættir, samfylgd hests og húsbónda um sandauðnir og jökulsár. Íslensk náttúra og þjóðlíf í hnotskurn. Kvískerjabók er í senn heiðursrit um lífsstarf mikilhæfrar fjölskyldu og dæmisaga um þá eðalkosti sem gert hafa Íslendinga að þjóð.


 

TungumálÚtlit síðu: