Um safnið

Um safnið

Saga safnsins

Framtíðarsýn, markmið og leiðir

Gjaldskrá og reglur

Starfsmenn

 
Saga bókasafnsins.

Árið 2007 voru liðin eitthundrað og sjötíu á frá stofnun elsta bókasafns í Austur- Skaftafellssýslu. Það hét Austur-Skaftafellssýslu lestrarfélag og var stofnað af séra Þórarni Erlendssyni í Bjarnanesi og fleiri prestum árið 1837.

Þetta gamla lestrarfélag, sem jafnframt er fyrsta félag sem sögur fara af í Austur-Skaftafellssýslu, hafði að markmiði að útvega bækur fyrir félagsmenn sína, aðallega presta, og virðist aðeins hafa starfað til ársins 1844. Til eru gerðabók og samþykktir félagsins og virðist það hafi verið með fyrstu lestrarfélögum á landinu en þau voru nokkur stofnsett á síðasta tug átjándu aldar og fram eftir fyrri hluta þeirrar nítjándu. Í nágrenni við Austur-Skaftafellssýslu er meðal annars vitað um lestrarfélag á Djúpavogi í byrjun nítjándu aldar.

Um eða upp úr aldamótunum síðustu höfðu verið stofnuð lestrarfélög í öllum fimm hreppum sýslunnar. Reyndar er vitað af lestrarfélagi ungra manna í Suðursveit um 1880 sem stuðlaði að áhuga á bóklestri og bókaeign þar í sveit. Meðal þeirra sem stóðu að félaginu var Þórður Steinsson á Hala, faðir Þórbergs Þórðarsonar. Seinna, eða á árunum 1908-1909 var stofnað Lestrarfélag Suðursveitar. Lestrtarfélag Lónmanna var stofnað 1894, á Mýrum komst lestrarfélag á laggirnar árið 1908 og í Öræfum á svipuðum tíma eða veturinn 1908-1909.

Í hverri sveit voru það áhugasamir einstaklingar sem höfðu frumkvæðið. Misjafnt mun þó hafa verið hvernig staðið var að félagsstofnuninni og til dæmis var eftirfarandi dreifibréf látið ganga á Mýrum þegar undirbúningu stóð yfir þar árið 1908:

Nauðsynlegt fyrirtæki

Kröfurnar sem vér gerum til lífsins, eru orðnar margbreyttar nú á tímum og mjög erfitt að fullnægja þeim. Reynslan hefir sýnt það að ekkert betra ráð er til fyrir hendi, til þass að greiða úr þessum erfiðleikum, en góður félagsskapur. Oss veitist jafnan erfiðar að bæta úr andlegu þörfunum, en hinum líkamlegu, svo að í því efni er brýn nauðsyn að sameina krafta sína eins vel og hægt er.

Úr þeim skorti verður best bætt, á hyggilegan hátt, með því að mynda félag til bókakaupa. Það er bæði ókleifur kostnaður og illa farið með efni sín af mönnum, er kaupa mikið af bókum einir út af fyrir sig. Í stað þess að geta fengið bækur að lesa, á kostnaðarminni hátt, með því að mynda lestrarfélag. Slík félög ættu að vera í hverri sveit, enda eru þau nú þegar mynduð, í mörgum sveitum þessa lands. Þótt vér íbúar þessa hrepps séum fámennir og fátækir, gætum vér þó ekki myndað lestrarfélag hjá okkur? Jú, vissulega, en eitt etriði þurfum vér til þess, umfram allt, - það er góður félagsskapur.

Vér þurfum að sameina okkur svo, að allir vinni með einum huga að því, að setja fyrirtækið á stofn. Það er leiðinlegt fyrir okkur að þurfa að vera að seilast í lestrarfélag annars hrepps, eftir bókum að lesa okkur tilfróðleiks og  skemmtunnar. Í stað þess að mynda það sjálfir og geta notað það sem sína eign.

Þetta þyrfti ekki að vera tilfinnanlegt kostnaðarfyrirtæki, ef það nyti styrktar flestra bænda hreppsins og búlausra manna þeirra er gætu notað það.

Um tillag til félagins er ekkert hægt að ákveða, fyrr en vissa er fengin um það, hvað margir yrðu meðlimir þess. Það yrði því minna sem félagsmenn væru fleiri. Fram yfir 2 krónur mundi það alls ekki verða. Það er tilgangur okkar, sem ritum nöfn okkar undir línur þessar, að fá að vita hvað margir hreppsbúar vildu mynda félag, til þess að stofna þetta þarflega og skemmtilega fyrirtæki og biðja þá er það vildu; rita nafn sitt og heimili á þetta skjal.

Jón Jónsson                                         Magnús Hallsson

                        Einar Sigurðsson

Berist rétta boðleið um Mýrahrepp.

 

Bókasafn stofnsett á Höfn

Frá því byggð hófst á Höfn árið 1897 og allt til ársins 1946 var kauptúnið hluti af Nesjahreppi. Snemma, eða fljótlega eftir aldamótin, hafði einn af frumbyggjum Hafnar, Guðmundur Sigurðsson söðlasmiður, forgöngu um stofnun Lestrarfélags Nesjamanna og var safnið til húsa á heimili hans, Hóli (Guðmundarhúsi) á Höfn allt til ársins 1921. Var Guðmundur formaður Lestrarfélagsins og bókavörður þess frá stofnun félagsins. Árið 1921 var bókasafn félagsins flutt í sal í kjallara kirkjunnar við Laxá í Nesjum. Kirkjan var byggð 1911 og var samkomusalur í kjallara hennar. Voru þar haldin böll, fundir og samkomur. Frá Höfn að Laxárkirkju var um sex kílómetra leið. Var safnið þar fram undir 1930 er það var á ný flutt út á Höfn.

Um það leyti tók Nesjahreppur við starfsemi bókasafnsins og hét það Bókasafn Nesjahrepps eftir þetta. Í reglum, sem safninu voru þá settar, segir að tilgangur safnsins sé ,,að útvega og tryggja hreppsbúum aðgang að góðum og gagnlegum bókum.” Skyldi hreppsnefnd leggja safninu til peninga til bókakaupa.

Við flutninginn út á Höfn var bókasafnið sett upp í húsi Guðna Jónssonar veitingamanns, Heklu. Var Guðni bókavörður um nær þrjátíu ára skeið, eða fram til ársins 1959. Safnið var alla tíð í Heklu, sem var veitinga- og gistihús, auk heimilis fjölskyldunnar. Guðni átti fjóra syni, þeirra á meðal Svavar listmálara. Hann hafði jafnframt umsjón með Sýslubókasafni er var forveri Héraðsbókasafns Austur-Skaftafellssýslu og var starfrækt af Sýslunefnd Austur-Skaftafellssýslu. Fljótlega eftir skiptingu Nesjahrepps í tvö sveitarfélög árið 1946 var bókakosti lestrarfélagsins skipt milli Nesjahrepps og Hafnarhrepps. Um það bil sem Guðni lét af störfum var Héraðsbókasafn Austur-Skaftafellssýslu stofnað og yfirtók það bókakost Sýslubókasafnsins og þann hluta bókakosts Lestrarfélags Nesjamanna sem hafði fallið Hafnarhreppi í skaut við hreppaskiptin. Hefur safnið frá þeim tíma gegnt hlutverki miðsafns fyrir Austur-Skaftafellssýslu og bæjarbókasafns fyrir Höfn.

 

Á fimm stöðum á þrjátíu árum

Við starfi bókavarðar tók nú Hallgrímur Sæmundsson kennari og var safnið sett upp í ný byggðum barnaskóla á Höfn, Hafnarskóla. Sinnti Hallgrímur starfi bókavarðar árin 1959-1960 að Sigurður Hjaltason, síðar sveitarstjóri og Aðalheiður Geirsdóttir, eiginkona hans, tóku við safninu og önnuðust það tvö næstu ár. Þá réðst Elínborg Pálsdóttir til bókasafnsins og starfrækti það að minnsta kosti einn vetur í Hafnarskóla. Þegar félagsheimilið Sindrabær var tekið í notkun árið 1964 fluttist héraðsbókasafnið þangað inn á efri hæð og var nú talið hafa fengið ,,fastan samastað”. Elínborg Pálsdóttir undirbjó þá flutninga, skipulagði safnið í Sindrabæ og vann við það í 15 ár, eða 1962-1977. En á þeim tíma, eða árið 1974, var safnið flutt enn um set og nú í nýbyggt ráðhús hreppsins.

Árið 1977 réðst Guðný Svavarsdóttir að safninu er Elínborg lét af störfum og starfar Guðný þar enn. Safnið var til húsa í ráðhúsinu til 1981, í Heppuskóla 1981-1982, í geymslu stóran hluta árs 1983 og var loks flutt að Hafnarbraut 36, þar sem nú er Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis, haustið 1983. (Að endingu, eftir langan flutninga- og hrakhólaferil fékk safnið inni í leiguhúsnæði vorið 1991, einnig að Hafnarbraut 36, en í stærra og betra plássi en áður hafði verið.) Árið 2002 flutti safnið enn einu sinni, og nú í nýbyggða Nýheima sem einnig hýsir Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu, Frumkvöðlasetur og Háskólasetur, Náttúrustofu Suðausturlands, Ríki Vatnajökul, Háskólafélag Suðurlands(Fræðslunetið), SASS og Búnaðarsamband Suðurlands.

 

Sýslusafn Austur-Skaftafellssýslu stofnað

Árið 1990 var gerð sú breyting á starfsemi safnanna í Austur-Skaftafellssýslu að rekstur þeirra var sameinaður í eina stofnun, Sýslusafn Austur-Skaftafellssýslu. Voru þetta byggðasafn, héraðsskjalasafn og héraðsbókasafn. Þann 1. júní 1990 var Gísli Sverrir Árnason bókasafnsfræðingur ráðinn forstöðumaður Sýslusafnsins. Hann hafði áður verið skjalavörður við Héraðsskjalasafn Austur-Skaftafellssýslu frá ársbyrjun 1986. Á starfstíma hans bættust tvö söfn formlega við Sýslusafnið, listasafn og náttúrugripasafnen grunnur að þessum söfnum öllum hafði verið lagður með starfi fjölmargra einstaklinga.

Gísli Sverrir lét af störfum í ársbyrjun 1996 og við starfi hans tók Eiríkur Páll Jörundsson sagnfræðingur.

 

Fjölþætt starfsemi

Eins og nærri má geta hefur safnkostur vaxið með árunum og þótt safni gamla lestrarfélagsins hafi verið skipt í tvennt upp úr hreppaskiptunum 1946 var héraðsbókasafnið stofnsett upp úr tveimur söfnum 1959, eins og áður sagði. Í tímans rás hafa safninu borist dýrmætar gjafir, til dæmis bækur úr safni sr. Eiríks helgasonar í Bjarnanesi og bókasafn Páls Þorsteinssonar, alþingismanns á Hnappavöllum. Undanfarin ár hefur bókakostur svo aukist í takt við vaxandi bóka- og blaðaútgáfu í landinu. Við flutning safnsins 1991 gafst fyrst kostur á að bæta þjónustu á ýmsa lund. Var afgreiðslutími safnsins margfaldaður í klukkustundum talið og er það nú opið alla daga vikunnar nema sunnudaga frá morgni til kvölds. Byrjað var að bjóða upp á sögustundir fyrir börn, heimsóknir og safnkennslu grunnskólanema og fleiri þætti sem ekki var aðstaða til að sinna áður.

Á undanförnum áum hefur safnið allt verið tölvuskráð og gott betur því nærliggjandi söfn (grunnskóla, framhaldsskóla og tveggja lestrarfélaga) hafa einnig verið skráð. Er því til tölvuskrá yfir stærstan hluta opinbers bókakosts í sýslunni. Heildareign telur um 45.000 bindi.Við þær breytingar sem tóku gildi árið 1990, er Héraðsbókasafnið varð hluti af Sýslusafni Austur-Skaftafellssýslu, gekk í raun í gildi ný skipan safnamála í sýslunni. Gerð var ein fjárhagsáætlun fyrir safnið og af því leiddi að safndeildirnar (bóka- skjala- og byggðasafn) og starfsfólk þeirra urðu að vinna sem ein heild. Enginn vafi er á að breytingin hefur haft peningalega og verklega hagræðingu í för með sér og gefið mörg ný tækifæri til sóknar og eflingar á þjónustu. Eftir sem áður er hverri deild sinnt sérstaklega og eftir þörfum viðskiptavina. Starfsemin hefur þó eflst og aukist á allan hátt og miklu hraðar en starfsmannafjöldi eða rekstrarkostnaður.

Auk almennrar starfsemi er lýtur að safndeildunum hefur ,,Sýslusafn Austur-Skaftafellssýslu” staðið fyrir ýmis konar menningarstarfsemi eitt og sér eða í samstarfi við aðra aðila. Menningarmálnefnd Austur-Skaftafellssýslu hefur með stjórn safnsins að gera og er forstöðumaður ,,Sýslusafnsins” jafnframt starfsmaður Menningarmálanefndar. Meðal þess sem framangreindir aðilar hafa staðið fyrir undanfarin ár eru tónleikar, fjölbreyttar list- og sögusýningar, útgáfumál, málþing, fyrirlestrar o.fl.Þá hefur verið tekin upp sú venja að afhenda einum aíla í héraði hvatningarverðlaun, Menningarverðlaun Austur-Skaftafellssýslu, fyrir störf á sviði menningarmála á undangengnu ári.

 

Til móts við nýja öld

Meðal þess sem Sýslusafnið beitti sér fyrir var að gefa almenningi kost á aðgangi að tölvusamskiptum um allan heim. Í því skyni stóð safnið að því, ásamt fjölda annarra aðila, að stofna tölvusamskiptamiðstöðina Eldsmiðinn hf. (Internetþjónustu) á Hornafirði árið 1995. Sýslusafnið átti peninga á bankabók sem það hafði fengið í arf eftir Sigurð Filippusson (sem kallaður var Eldsmiðurinn í samnefndri kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar). Námu þessir peningar 400.000 krónum árið 1995 og lagði safnið þá sem hlutafé í fyrirtækið til þess eins og áður er sagt til að auðvelda almenningi aðgang að tölvusamskiptum og upplýsingaleit um allan heim. Var tveimur tölvum komið fyrir í afgreiðslu safnsins og fólki veittur aðgangur að þeim fyrst um sinn ókeypis en síðan gegn vægu gjaldi. Með þessu tókst safninu og starfsfólki þess að opna Hornfirðingum sýn inn á  nýja upplýsingabraut sem ekki er séð fyrir endann á.

Bókasöfn eru búin til að taka þátt í slíkri þróun, sem upplýsinga- og fróðleiksbrunnar, og eiga að gera það með heilum huga og sem þátttakendur í stað þess að sitja hjá og bíða eftir því sem að þeim er rétt.

 
Framtíðarsýn Bókasafns, markmið og leiðir

 

Stefnumótun í Menningar- og safnamálum Hornafjarðar 2007-2017 var samþykkt á fundi Menningarmálanefndar 14. febrúar 2007. Bókasafnið vinnur eftir þeim áherslum sem þar koma fram, framtíðarsýn, markmiðum og þeim leiðum sem við höfum til að ná þeim markmiðum.

 

Framtíðarsýn

Bókasafnið sé leið til þekkingar og virkt tæki til menntunar, menningar og

upplýsinga. Bókasafnið skapi frumskilyrði til ævimenntunar, sjálfstæðrar

ákvarðanatöku og menningarþroska.

Kjörorð

Metnaðarfullt menningarstarf

Góð þjónusta

Hagkvæm nýting fjármuna

Lýðræðisleg stjórnun

Jafnræði og ánægja í starfi

 

 • Markmið og leiðir

 

Að auka skilning á íslenskri tungu, bókmenntum og menningu, hvetja til lestar og styðja nám og símenntun

Leiðir:

 •  Fjölbreyttur safnkostur sem endurspeglar fordómalaust efnisval
 •  Safnkostur skal vera í góðu ásigkomulagi
 • Notendur hafi leiðir til að koma óskum og ábendingum um innkaup á
  framfæri
 • Samvinna við skóla um innkaup, jafnt á prentuðu máli, myndböndum, tónlist og margmiðlunarefni

 

Vera virkt tæki til menntunar, menningar og upplýsingar fyrir einstaklinga og hópa

Leiðir:

 • Bókasafnið sé upplýsingaveita þar sem einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum er veitt fagleg upplýsingaþjónusta
 • Stuðla að símenntun starfsmanna
 • Ánægðir starfsmenn í góðri vinnuaðstöðu
 • Góð lestraraðstaða fyrir nemendur og kennara á framhalds– og háskólastigi
 • Stuðningur við það nám sem í boði er í héraðinu
 • Veita notendum aðgang að upplýsingum um safnkost úr gagnagrunnum bókasafnsins
 • Leiðbeina notendum við að finna gögn sem ekki eru til á safninu
 • Veita notendum aðgang að rafrænum gagnagrunnum, innlendum og erlendum
 • Bæta aðgang notenda á bókasöfnunum á Hrollaugsstöðum og í Hofgarði að gagnagrunni bókasafnsins
 • Opnunartíma sem hæfir markhópum

 

Örva og styrkja lestrarvenjur barna frá unga aldri, örva og styrkja ímyndunarafl og sköpunargleði

Leiðir:

 • Sögustundir fyrir börn
 • Fjölbreyttur bókakostur
 • Samstarf við eldri borgara
 • Samstarf við skólastofnanir á öllum stigum menntunar
 • Fjölbreytt starfsemi fyrir börn og unglinga
 • Hugmyndabanki og spurningakannanir

 

Efla vitund um menningararf, gildi lista, vísindaafrek og uppgötvanir

Leiðir:

 • Bókasafnið marki sér sérstöðu, m.a. á sviði fræðibóka tengdum jöklum, náttúruvísindum og fuglum
 • Bókasafnið safni efni um listamenn, t.d. rithöfunda og málara frá svæðinu í

         samvinnu við aðrar menningarstofnanir

 

Styðja og taka þátt í að efla lestur hjá öllum aldurshópum

Leiðir:

 • Standa fyrir bókmenntakynningum fyrir alla aldurshópa
 • Vera leiðandi í bókmenntastarfi innan fjórðungsins sem miðstöð bókmennta

         á Austurlandi

 • Leggja áherslu á samvinnu og tengsl við aðra menningarstarfsemi
 • Starfrækja fjölbreytta og áhugaverða fræðslustarfsemi

 
Gjaldskrá og reglur

 

1.      Allir lánþegar bókasafnsins sex ára og eldri eiga rétt á bókasafnsskírteini án endurgjalds. Skírteinið má sá einn nota, sem það er gefið út á.

2.      Glatist skírteini þarf lánþegi að greiða 500 kr. fyrir nýtt kort.

3.      Lánþegi er ábyrgur fyrir þeim safngögnum sem tekin eru út á lánsskírteini hans.

4.      Útlán á  bókum, myndböndum,  hljóðbókum, mynd- og hljómdiskum og tímaritum eru án gjaldtöku.

5.      Fyrir sjónskerta og aðra sem ekki geta nýtt sér prentað mál býður bókasafnið upp á hljóðbækur.

6.      Fyrir aðgang að Interneti eru greiddar 200 kr. notendum eru úthlutaðar 30 mínútur í senn. Útprentun kostar 20 kr. á hvert blað hvort sem um er að ræða uppflettitölvur eða Internetaðgang.

7.      Útlánstími gagna er eftirfarandi:

·        Nýjar bækur                                                             14 dagar

·        Eldri bækur                                                              30 dagar

·        Tímarit                                                                     30 dagar

·        Hljóðbækur                                                              30 dagar

·        Myndbönd                                                                2 dagar

·        Myndbönd vegna námskeiða                                      7 dagar

·        Hljómdiskar                                                              7 dagar

8.      Sektir sem greiða þarf eftir skiladag eru eftirfarandi fyrir hvert gagn á hvern dag:

·        Bækur, tímarit, hljóðbækur og hljómdiskar                      20 kr.

·        Myndbönd                                                                    300 kr.

Ef safnefni hefur ekki verið skilað innan 10 vikna eftir að lánsfrestur rann út telst það glatað og er lánþegum skylt að bæta það samkvæmt ákvörðun bókasafnsins.

9.      Glati lánþegi gögnum frá safninu skal hann bæta fyrir með nýju eintaki eða greiðslu sem bókasafnið ákveður.

10.  Verðskrá fyrir ljósritun á safninu er eftirfarandi:

·        Hvert blað – allt að 100 blöðum                                     20 kr.

·        Hvert blað – yfir 100 blöð                                              15 kr.

 

11.  Millisafnalán.

       Greiðsla fyrir bækur í millisafnaláni innanlands                        500 Kr

       Greinar 10 bls. eða styttri                                                      700 Kr

       Greinar 10 -20 bls.                                                              1.400 Kr

 

 
Starfsmenn

 

Bókasafnið heyrir undir Menningarmiðstöð Hornafjarðar, forstöðumaður hennar er Vala Garðarsdóttir.  Atvinnu- og menningarmálanefnd fjallar um málefni safnsins.  Í því sitja Kristján Guðnason, Gunnhildur Gísladóttir, Valdimar Ingólfsson, Halldóra Bergljót Jónsdóttir og Steven Robert Johnson.

 

 

Starfsfólk bókasafns er:

 

Bryndís Hólmarsdóttir

Bókavörður/Barnastarf

bryndish@hornafjordur.is

 

Guðný Svavarsdóttir

Bókavörður/afgreiðsla/innkaup

gudny@hornafjordur.is

 

 

Ingibjörg Lilja Pálmadóttir

Safnvörður

ingibjorglp@hornafjordur.is

 

 

Vala Garðarsdóttir

Forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar

vala@hornafjordur.is

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 

TungumálÚtlit síðu: