Byggðasafn

Mikligarður

Mikligarður

Með aukinni útgerð Austfirðinga frá Hornafirði á öðrum áratug 20. aldar óx þörf fyrir aðstöðu í landi. Byggðar höfðu verið verstöðvar í Mikley og síðar á Ægissíðu. Árið 1918 hóf Þórhallur Daníelsson kaupmaður framkvæmdir við nýja verstöð á Hornafirði. Húsið var að stórum hluta komið í gagnið á vetrarvertíðinni 1920. Húsið nefndi hann Miklagarð eftir Garði í Fnjóskadal, bæ foreldra Ingibjargar Friðgeirsdóttur konu Þórhalls. Næstu árin var byggt við báða enda Miklagarðs og varð húsið 82 metra langt og gat hýst 14 bátshafnir. Á árunum 1925-1945 dvöldu að jafnaði 100-150 manns í húsinu á vertíðum. Í austurendanum voru meðal annars samkomusalir; Pakkhúsið og Stúkusalurinn.
Arnþór Gunnarsson segir svo frá:

"Mikligarður á sér afar litríka sögu því hann var ekki bara skjól og vinnustaður vermanna sem færðu þjóðinni björg í bú heldur einnig um áratugaskeið vettvangur skemmtanahalds, listviðburða, guðsþjónusta, íþróttaæfinga og fundarhalda. Fjölskyldur sem voru að flytjast búferlum til Hafnar fengu þar líka oft inni á meðan þær voru að koma sér þaki yfir höfuðið. Í pakkhúsinu voru sett upp leikrit, haldnar söngskemmtanir og slegið upp dansleikjum. Á efri hæðinni í austurenda Miklagarðs austan við pakkhúsið var Stúkusalurinn. Þar fengu félög að halda fundi sína m.a. stúka sem stofnuð var á Höfn um 1930 og þannig er nafnið tilkomið. Í Stúkusalnum fóru líka fram dansleikir og jólatrésskemmtanir og þar fengu börn tilsögn í leikfimi. Auk þess voru þar haldnar guðsþjónustur allt þar til barnaskólinn var reistur á Garðshól um 1940, þá færðist messuhald þangað. Á stríðsárunum reisti U.M.F. Sindri samkomuhús efst á Heppu og var þá almennt samkomuhald í Miklagarði að mestu leyti úr sögunni þótt endrum og sinnum væri slegið upp böllum þar á vertíðum."

Mikligarður hefur nú í rúm 80 ár gegnt mikilvægu hlutverki í sjávarútvegs- og atvinnusögu Hafnar. Sveitarfélagið Hornafjörður er eigandi hússins og hefur tekið ákvörðun um að varðveita það. Fram hafa komið hugmyndir um að gera húsið "einskonar miðstöð lista, handverks og atvinnulífs" og stofna samtök um verndun þess og rekstur.

Heimildir um sögu Miklagarðs:
Arnþór Gunnarsson: Verstöðvarnar á Hornafirði, 1994.
Arnþór Gunnarsson: Saga Hafnar í Hornafirði, fyrra bindi, 1997.


 

TungumálÚtlit síðu: