>>

Félagsþjónustan

Markmið félagsþjónustu sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúa, og að stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Við framkvæmd þjónustunnar er það haft að leiðarljósi að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, styrkja hann til sjálfshjálpar og virða sjálfsákvörðunarrétt hans.

Í félagsþjónustu Hornafjarðar er m.a. unnið eftir lögum um:

 • félagsþjónustu sveitarfélaga sbr.lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 nr. 30/1994, 130/1995 og 34/1997
 • málefni fatlaðra nr. 59/1992
 • grunnskóla nr. 66/1995
 • barnavernd nr. 80/2002
 • jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000
 • áfengis-og vímuefnavarnir nr. 76/1998

Félagsmálaráð fer með stjórn og framkvæmd félagsþjónustunnar í umboði bæjarstjórnar, en framkvæmd þjónustunnar er í höndum starfsmanna. Áhersla er lögð á náið samstarf milli félagsþjónustu, heilsugæslu og þeirra sem vinna að fræðslumálum.

 

Fyrir hvern er félagsþjónustan?

Þeir sem eiga lögheimili á Hornafirði eiga rétt á að leita félagslegrar aðstoðar. Starfsfólk félagsþjónustunnar er bundið trúnaði um málefni þeirra sem til hennar leita. Best er að leita ráðgjafar og aðstoðar áður en vandinn er orðinn yfirþyrmandi.

 

Félagsþjónustan er til húsa í Ráðhúsi Hornafjarðar að Hafnarbraut 27. Ráðhúsið er opið alla virka daga frá kl. 8:00-12:00 og 12:45-15:30. Aðalsími: 470-8000.

Beinar línur :

 • Félagsmálastjóri Jón Kristján Rögnvaldsson 470-8004

         Neyðarnúmer barnaverndarmála er 112

 • Fulltrúi málefna fatlaðra Maren Ósk Sveinbjörnsdóttir 470-8019

 

 

Verkefni félagsþjónustu Hornafjarðar eru meðal annars:

 • Félagsleg ráðgjöf
 • Fjárhagsaðstoð
 • Húsaleigubætur
 • Þjónusta við fólk með fötlun
 • Félagsleg heimaþjónusta
 • Barnavernd
 • Aðstoð við áfengissjúka og vímuefnavarnir
 • Forvarnir

 

Félagsleg ráðgjöf

Markmið félagslegrar ráðgjafar er að vinna að lausn félagslegra og persónulegra erfiðleika sem og að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindi. Ráðgjöf er veitt vegna fjármála, húsnæðismála, uppeldismála, skilnaðarmála, forsjár- og umgengnismála, ættleiðingarmála, veikinda, atvinnuleysis, samskiptaerfiðleika í fjölskyldu, áfengis-og vímuefnavanda o.fl.

 

Fjárhagsaðstoð

Fjárhagsaðstoð er veitt vegna framfærslu einstaklinga og fjölskyldna. Rétt á fjárhagsaðstoð eiga þeir sem lögheimili eiga á Hornafirði og hafa tekjur undir ákveðnum viðmiðunarmörkum. Sveitarfélagið hefur sett sér reglur um þessi viðmiðunarmörk. Starfsfólk félagssvið metur þörfina og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarfélagsins. Við útreikning fjárhagsaðstoðar koma allar tekjur til frádráttar. Aðstoðin getur verið í formi lána eða styrkja, og eru fjárhagsstyrkir skattskyldar tekjur. Þegar sótt er um fjárhagsaðstoð þarf að fylla út sérstakt umsóknareyðublað. Fjárhagsaðstoð sem veitt er á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga er alltaf endurkræf sbr. 23. gr.laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

 

Húsaleigubætur

Markmið með greiðslu húsaleigubóta er að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda, og koma slíkar bætur einungis til greina fyrir leigu á íbúðarhúsnæði. Sveitarfélagið sér um greiðslu húsaleigubóta og annast húsnæðisfulltrúi afgreiðslu umsókna. Sótt er um bætur fyrir hvert almanaksár og endurnýja þarf umsókn um hver áramót. Húsaleigubætur eru skattskyldar tekjur. Nánari upplýsingar um húsaleigubætur er að finna í bæklingi félagsmálaráðuneytis um húsaleigubætur.

Húsnæðisfulltrúi annast einnig umsóknir vegna félagslegra leiguíbúða.

 

Þjónusta við fólk með fötlun

Félagsþjónusta skal stuðla að því að fólki með fötlun sé tryggt jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna. Samkvæmt lögum um málefni fatlaðra, á fólk með fötlun rétt á margvíslegri þjónustu frá sveitarfélaginu og ríkinu. Eftirfarandi þjónusta er meðal annars veitt, ásamt almennri og sérhæfðri ráðgjöf til fatlaðra og fjölskyldna þeirra.

Liðveisla: persónulegur stuðningur sem miðar að því að rjúfa félagslega einangrun, til dæmis með aðstoð við að njóta tómstunda, menningar og lista. Er veitt bæði börnum og fullorðnum.

Frekari liðveisla: margháttuð aðstoð við fullorðna við ýmsar athafnir daglegs lífs, bæði inni á heimilum og úti í samfélaginu.

Dagþjónusta: Þar gefst fólki meðal annars tækifæri til að sinna tómstundaiðju, vinna ýmis verkefni, fara í gönguferðir, spjalla og fá keyptan hádegismat. Dagþjónustan er fyrir fullorðna og hún er starfrækt alla virka daga.

Ferðaþjónusta: felur meðal annars í sér  akstur til og frá dagþjónustu, ferðir til læknis, ýmsar útréttingar og fleira. Þjónustan fer eftir þörfum hvers og eins.

 

Þjónusta við fötluð börn og fjölskyldur þeirra

Felur meðal annars í sér  ráðgjöf, þjálfun, liðveislu, dvöl hjá stuðningsfjölskyldu og sumardvöl. Fer eftir þörfum hvers og eins. Ráðgjöf er veitt til leikskóla og skóla vegna fatlaðra barna.Umsóknir um umönnunarbætur, stuðningsfjölskyldur og liðveislu eru afgreiddar hjá fulltrúa um málefni fatlaðra, Hafnarbraut 27.

 

Félagsleg heimaþjónusta

Sveitarfélaginu er skylt að sjá um félagslega heimaþjónustu til handa þeim sem búa í heimahúsum en geta ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar. Með slíkri þjónustu er stefnt að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsum. Félagsleg heimaþjónusta getur verið hvers konar aðstoð við heimilishald, persónulega umhirðu, félagslegur stuðningur,  gæsla og umönnun barna. Sækja skal um félagslega heimaþjónustu á heilsugæslu, sími 470-8600.

Gefinn hefur verið út sérstakur bæklingur um heimaþjónustu á Hornafirði á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands.

 

Barnavernd

Barnasáttmáli Sameinuðuþjóðanna 19. gr. Börn eiga rétt á vernd gegn líkamlegu og andlegu ofbeldi og gegn vanrækslu.

Markmið barnaverndar er að tryggja börnum og ungmennum viðunandi uppeldisskilyrði og skal það gert með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar. Er það m.a. gert með ráðgjöf, fræðslu, forvörnum og eftirliti. Í barnaverndarstarfi eru hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi.

Samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002, ber hverjum sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu, að tilkynna það barnaverndarnefnd. Með börnum er átt við einstaklinga yngri en 18 ára. Sá er tilkynnir getur jafnan óskað nafnleyndar gagnvart öðrum en nefndinni.

 

 

Önnur þjónusta tengd félagsþjónustu

 

Þjónusta vegna erfiðleika í skóla

Sveitarfélaginu er skylt að sjá skóla fyrir sérfræðiþjónustu. Má þar nefna námsráðgjöf og sálfræðiþjónustu, og stuðla að því að slík þjónusta nýtist sem best í skólastarfi. Sérfræðiþjónusta skal gefa forráðamönnum kost á leiðsögn og leiðbeiningum um uppeldi nemenda eftir því sem aðstæður leyfa.

Hjá sveitarfélaginu starfar sérkennslufulltrúi. Hann hefur umsjón með sérfræðiþjónustu við grunn- og leikskóla, aðstoðar við skipulagningu sérkennslu innan grunnskóla og mat á sérkennsluþörf. Hlutverk hans er einnig að bregðast við mismunandi þörfum nemenda og útvega þjónustu annarra sérfræðinga þegar þörf krefur. Félagsþjónustan veitir einnig stuðning innan skólanna.

 

Sálfræðiþjónusta

Íbúum sveitarfélagsins stendur til boða sálfræðiþjónusta. Helstu verkefni eru sálfræðileg greining og stuðningur við nemendur. Sálfræðiráðgjöf fyrir almenning er í formi einstaklings- og eða fjölskylduráðgjafar. Hægt er að óska eftir viðtali við sálfræðing hjá heilsugæslulækni, félagsmálastjóra og fulltrúa málefna fatlaðra.

 

Heimasíða Sveitarfélagsins

Hér á heimasíðu Sveitarfélagsins er hægt að finna upplýsingar um starfsemi og þjónustu á vegum bæjarins, ásamt símanúmerum og netföngum starfsmanna. Á síðunni er einnig að finna eyðublöð (umsóknir) og ýmsar hagnýtar upplýsingar um Hornafjörð og stjórnsýslu bæjarins. 

 

 


 

TungumálÚtlit síðu: