Fréttir

Vatnsleysi stafaði af bilun í stýrikerfi vatnsveitunnar

15.10.2004 Fréttir

Vatnsveita Hornafjarðar

Í gær urðu bæjarbúar varir við að vatnsleysi sem stafaði af bilun í stýrikerfi vatnsveitunnar í dæluhúsi við vatnsmiðlunargeyminn á Höfn. Við vatnsbólið í Hólmslindum í Laxárdal eru 5 dælur sem afkasta um 60 l/s, en reiknað er með að vatnsbólið gefi að jafnaði um 80 l/s. Miðlunargeymirinn við tjaldstæðið á Höfn er 1.900 rúmmetrar ( 1.900.000 lítrar ) og miðlunargeymir í Ketilaugarfjalli í Nesjum er 300 rúmmetrar ( 300.000 lítrar ). Dælur í miðlunargeymi á Höfn stýra síðan vatnsþörfinni út á dreifikerfið á Höfn og þrýstingur er um 2 kg. en það sem gerðist í gær var að dæla stöðvaðist vegna bilunar og við það fellur þrýstingur og fyrst hjá þeim sem búa hæðst yfir sjávarmáli. Mesta vatnsþörf er í kringum vinnslu á uppsjávarfiski og fara um 70 l/s þegar mest er. Fiskvinnslan í Krossey er hinsvegar með dælur á sínu vatnskerfi og skammta sér þrýsting inn í hús þannig að þar kemur þetta ekki að sök.

Mjög lítið er um bilanir á vatnsveitukerfinu öllu, enda hefur það verið í öryggri umsjón Kjartans Jónssonar í gegnum tíðina. Gæði vatnsins eru með því betra sem til þekkist og fyrr á þessu ári var innleitt innra eftirlit hjá Vatnsveitu Hornafjarðar í samræmi við ákvæði reglugerðar um matvælaeftirlit og hollustuhætti nr 522/1994, til að tryggja neytendum ávallt öruggt og heilnæmt vatn.

Senda grein

 

Fréttasafn


TungumálÚtlit síðu: