Fréttir

Flóð á Höfn 15.10 2005

6.12.2005 Fréttir : Skuldir bæjarsjóðs lækka þrátt fyrir miklar framkvæmdir.

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Hornafjarðar fyrir árið 2006 var samþykkt í bæjarstjórn 1. desember sl. Þar kemur fram að heildarvelta bæjarsjóðs, stofnana og fyrirtækja bæjarins (Heilbrigðistofnunar Suðausturlands, Hornafjarðarhafnar, vatnsveitunnar og húsnæðiskerfisins) verður um 1,7 milljarður . Launakostnaður er afgerandi útgjaldaþáttur með um 65,6% af skatttekjum og fræðslu- og uppeldismál vega þyngst með um 57,4% af skatttekjum. Bæjarstjórn hefur á síðustu árum beitt aðhaldi í útgjöldum og lækkað skuldir bæjarsjóðs verulega. Með því móti skapast svigrúm til að framkvæma stærri verkefni. Á næsta ári er áætlað að verja 150 m.kr. til framkvæmda á vegum bæjarsjóðs. Forgangsverkefni eru sundlaug og íþróttasvæði. Jafnframt verður framkvæmt á vegum vatnsveitu fyrir 4 m.kr. og hafnarsjóðs fyrir 110,7 m.kr. en af þeirri upphæð koma 75,0 m.kr. af samgönguáætlun. Lesa meira

1.12.2005 Fréttir : Reglur um farandsölu í Sveitarfélaginu

Af gefnu tilefni er bent á að í gildi eru reglur um farandsölu í Sveitarfélaginu Hornafirði. Samkvæmt reglunum er öllum er heimilt að stunda farandsölu í Sveitarfélaginu Hornafirði, enda fullnægi þeir skilyrðum laga nr. 28/1998 um verslunaratvinnu til að stunda slíka starfsemi og þeim skilyrðum sem sett eru í reglum þessum. Til þess að heimild fáist þarf að skila inn öllum nauðsynlegum gögnum, þar á meðal staðfesting á skráningu rekstraraðila í firma- eða hlutafélagaskrá, eintak nafnspjalds skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 28/1998 og upplýsingar um fasta starfsstöð og prókúruhafa. Þar þarf að koma fram nafn, kennitala, VSK númer rekstraraðila, hvaða vörur viðkomandi hyggst selja, og hvar og hvenær salan mun eiga sér stað. Sveitarfélagið getur látið stöðva farandsölu, komi í ljós að upplýsingar standist ekki. Lesa meira
Grunnskoli_005

1.12.2005 Fréttir : Heimsóttu ráðhús sveitarfélagsins

Í dag, 1. desember 2005, heimsóttu nemendur og starfsfólk Hafnarskóla ráðhús sveitarfélagsins. Bæjarráð ásamt starfsmönnum í ráðhúsi tók á móti hópnum framan við húsið. Nemendur sungu nokkur lög og færðu bæjarráði, bæjarstjóra og framkvstj. fræðslu- og félagssviðs áletraða boli að gjöf. Á bolunum er merki Hafnarskóla og áletranirnar Byggjum betra samfélag og VIRÐING FRELSI VINÁTTA Lesa meira
Horft til fjalla

3.11.2005 Fréttir : Lögheimilis- og aðsetursbreytingar

Nú fer sá tími að koma að þeir aðilar sem þeir sem búsettir eru í Sveitarfélaginu Hornafirði, en voru ekki skráðir með lögheimili þar samkvæmt síðustu íbúaskrá þurfa að tilkynna um rétt lögheimili. Hið sama gildir um þá sem flutt hafa heimili sitt innan sveitarfélagsins. Tilkynna á um flutning eigi síðar en sjö dögum eftir að hann á sér stað en eins og oft vill verða þá getur það farist fyrir og því skorar Sveitarfélagið á alla þá sem ekki hafa þegar gengið frá þeim málum að ljúka því hið fyrsta eða fyrir 1.desember n.k. Lesa meira

21.10.2005 Fréttir : Skólastefna Hornafjarðar

Í vinnu að nýrri skólastefnu er leitað eftir þátttöku allra sem hagsmuna eiga að gæta og láta sig skólamál varða. Nú leitum við eftir þátttöku forráðamanna og annarra sem áhuga hafa á þessum málaflokki. Með því að mæta á fund í Hafnarskóla þriðjudaginn 25. október næstkomandi kl. 20:00 gefst fólki kjörið tækifæri til að láta rödd sína heyrast og hafa þannig áhrif á skipulag skólamála í næstu framtíð. Skólanefnd Hornafjarðar Lesa meira
Flóð á Höfn 15.10 2005

20.10.2005 Fréttir : Flóðin á Höfn

Úrkoma á Höfn og nágrenni frá hádegi föstudagsins 14. október til um kl. 21 á laugardagskvöld er áætluð um 185 mm. Í Akurnesi mældist á þessum tíma 220 mm úrkoma. Á föstudagskvöld tók að bera á vatnsflóðum í íbúðarhús og hafist var handa við dælingu sem var framhaldið þá um nóttina og á laugardaginn. Það voru starfsmenn í áhaldahúsi, slökkviliði og tæknideild sem unnu við dælingar og notuðu til verksins allar tiltækar dælur frá Króm og Hvítt, Rarik og Rósaberg, auk öflugra dælubíla slökkviliðsins. Fráveitukerfi Hafnar, líkt og almennt gerist með slík kerfi, er hannað til að taka á móti fljóðatjónum sem koma á 5-10 ára fresti. Ef kerfi eru hönnuð til að geta flutt vatn vegna meiri úrkomu eru mun dýrari og virkni þeirra verri, t.d. vegna sjálfhreinsunar. Veðrið sem hér geisaði frá hádegi á föstudag til laugardagskvölds er talið endurtaka sig á 100 ára fresti og er umtalsvert meira flóð en fráveitukerfið er hannað til að taka á móti, samkvæmt upplýsingum frá Línuhönnun. Lesa meira
Dansinn dunar

19.10.2005 Fréttir : Starfsmenn Sveitarfélagsins í rokkið

Á laugardaginn kemur eða nánar tiltekið Fyrsta vetrardag verður mikill rokkdagur hjá starfsmönnum Sveitarfélagsins Hornafjarðar en þá ætla þeir ásamt mökum sínum að gera sér dagamun og bregða sér á rokkveisluna Rokk í 50 ár á Hótel Höfn með öllu tilheyrandi mat, drykk og dansi. Á annað hundrað manns mæta þar. Átta ár eru liðin síðan slík starfsmannahátíð var haldin síðast sem var á 100 ára afmælishátið Hafnar í íþróttahúsinu. Í það skipti fór einmitt fram keppnin um afmælislag Hafnar og var það lag Heiðars Sigurðssonar Kæra Höfn sem bar sigur úr býtum en hann er tónlistarstjóri Rokk í 50 ár. Undirbúningsnefnd hefur unnið að undirbúningi hátíðarinnar í nokkra mánuði og hefur þegar gert tillögu að næstu hátíðarnefnd sem verður formlega opinberuð á hátíðarkvöldinu. Lesa meira
Anna Lilja Ottósdóttir

25.8.2005 Fréttir : Anna Lilja nýr starfsmaður í Ráðhúsi

Anna Lilja Ottósdóttir hefur verið ráðinn á fjármálasvið Sveitarfélagsins í stað Luciar Óskarsdóttur, sem áður auk, almennra skrifstofustarfa, sá um afgreiðslu Ráðhússins og greiddi götu þeirra sem þangað áttu erindi. Um er að ræða 100 % stöðugildi. Anna Lilja er fædd á Vestfjörðum, nánar til tekið á Patreksfirði og ólst upp á Bíldudal, en hefur búið hér á Hornafirði síðastliðin 15 ár. Hún útskrifaðist á skrifstofubraut FAS s.l. vor, en áður hefur hún meðal annars. unnið hjá Sveitarfélaginu við störf í Sundlauginni og á leikskólanum Lönguhólum, auk þess sem hún hefur unnið við önnur þjónustu- og verslunarstörf. Hún er gift Birni J Ævarssyni og eiga þau hjónin 2 börn. Lesa meira
Össur Imsland

9.8.2005 Fréttir : Össur ráðinn á tækni- og umhverfissvið

Össur Imsland hefur verið ráðinn á tækni- og umhverfissviðs Sveitarfélagsins í stað Vals Sveinssonar, sem hætti störfum í júní s.l. Um er að ræða 100 % stöðugildi. Össur er borinn og barnfæddur Hornfirðingur og hefur lengst af búið hér á Hornafirði fyrir utan námsár sín í Reykjavík og í Danmörku.Össur er menntaður húsasmiður frá Iðnskólanum í Reykjavík og rak á tímabili byggingarfyrirtækið Imstak ehf, hér á Höfn með bróður sínum, Birni Imsland sem einnig starfar á tæknideild sveitarfélagsins. Hann öðlaðist meistararéttindi við Tækniskóla Íslands þar sem hann stundaði nám, en hélt síðan til Óðinsvé, þar sem hann lauk prófi nú í júlí s.l. sem byggingarfræðingur. Á skólagöngu sinni hefur Össur oftar en einu sinni verið verðlaunaður fyrir framúrskarandi árangur. Lesa meira
Borgþór Freysteinsson

15.4.2005 Fréttir : Nýr starfsmaður í Ráðhúsi

Borgþór Freysteinsson hefur verið ráðin í stöðu eldvarnareftirlitsmanns hjá sveitarfélaginu í stað Ragnars Imslands sem gegnt hafði stöðunni til fjölda ára. Um er að ræða 60 % stöðugildi. Borgþór er borinn og barnfæddur Hornfirðingur, alinn upp í Hagartúninu. Hann er menntaður mjólkurfræðingur og vann við það í fjölda ára auk annara starfa s.s. sjúkraflutningsmaður og lögregluþjónn. Borgþór hefur starfað hjá Slökkviliði Hornafjarðar frá 1988 og tekið þátt í flest öllum námskeiðum sem þar hafa verið í boði, auk þess sem hann hefur farið til Finnlands og lokið þar eiturefnanámskeiði. Lesa meira
Höfn

12.4.2005 Fréttir : Auglýst eftir fólki í sumarstörf

Sveitarfélagið auglýsir nú eftir fólki í sumarstörf eins og undanfarin ár, um er að ræða starf verkstjóra vinnuskólans en það starf felst í stjórnun hans, skipulagningu og umsjón verkefna í samráði við deildarstjóra tækni- og umhverfissviðs Hornafjarðar. Æskilegt er að umsækjendur í starfið séu 20 ára eða eldri, hafi uppeldismenntun og/eða reynslu af umgengni við unglinga. Einnig er reynsla af stjórnun verkefna og almennum garðyrkjustörfum æskileg. Auglýst eftir starfsmanni sem sér um flokksstjórn í vinnuskólans á Höfn og í Nesjum, það starf felst í að vinna með unglingum í umhirðu grænna svæða sveitarfélagsins. Umsækjendur þurfa helst að vera 20 ára eða eldri, æskilegt er að þeir hafi uppeldismenntun og/eða reynslu af umgengni við unglinga og er reynsla af almennum garðyrkjustörfum æskileg. |nl| Lesa meira
Skólamálaþing í Nýheimum

22.2.2005 Febrúar : Fjölbreytni og gæði fyrirlestra mikil

Síðastliðinn laugardag var haldið skólamálaþing í Nýheimum á vegum sveitarfélagsins. Fyrir hádegi var unnið í þremur málstofum þar sem fram komu fulltrúar leikskóla, grunnskóla, tónskóla, framhaldsskóla og foreldra. Eftir hádegi var safnast saman á sal þar sem fram komu þrír gestafyrirlesarar auk heimamanna. Samtals voru fluttir 17 fyrirlestrar á þinginu. Lesa meira
Krosseyjarbakkinn í Hornafjarðarhöfn

19.2.2005 Fréttir : Atvinnulíf á norðurslóðum

Fimmtudaginn 24. febrúar kl. 20-22 verður málþing í Nýheimum á Höfn um atvinnumál á norðurslóðum. Fjallað verður um hvernig jaðarbyggðum í Færeyjum, Íslandi og Noregi hefur tekist að laga sig að breyttum atvinnuháttum. Efnið er áhugavert því gerður er samanburður á reynslu samfélaga víðsvegar á norðurslóðum. Þess vegna er fróðlegt að vita hvort þau vandamál sem Hornfirðingar glíma við séu einkennandi fyrir aðrar norðlægar byggðir eða einsdæmi. Á málþinginu mun Unnur Dís Skaptadóttir, dósent við Háskóla Íslands, gera grein fyrir helstu niðurstöðum samnorrænnar rannsóknar um efnið sem birtar voru í bókinni Innovations in the Nordic Periphery. |nl| Lesa meira
Vestrahorn-25.01.2005

18.2.2005 Fréttir : Auglýst eftir umsóknum í þróunar- og endurmenntunarsjóð

Sveitarfélagið Hornafjörður auglýsir nú eftir umsóknum í þróunar- og endurmenntunarsjóð sveitarfélagsins og skulu þær berast í afgreiðslu Ráðhúss eigi síðar en 28. febrúar n.k. Vakin er athygli á að 5.gr. í reglugerð sjóðsins hefur breyst og hljóðar nú þannig: "Unnt er að sækja um styrk til sjóðsins tvisvar á ári, í febrúar og september. Auglýsa skal úthlutun og úthlutunarreglur á heimasíðu sveitarfélagsins. Sjóðsstjórn skal svara öllum styrkumsóknum skriflega. Að öllu jöfnu styrkir sjóðurinn ekki sama einstaklings oftar en tvisvar sinnum vegna sama náms og að hámarki kr. 100.000." Lesa meira
Hjalti Þór Vignisson tekur á móti lyklum af Menningarmiðstöðunni

16.2.2005 Febrúar : Breytingar í yfirstjórn sveitarfélagsins

Eins og fram hefur komið hér á vefnum lét Gísli Sverrir Árnason af störfum sem forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og Hjalti Þór Vignisson verið ráðinn forstöðumaður Menningarmiðstöðvarinnar. Nýtt skipurit hefur tekið gildi og í því felast miklar breytingar á þessu starfi. Hjalti Þór var áður framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs í Sveitarfélaginu Hornafirði. Á fundi bæjarstjórnar þann 22. desember var samþykkt nýtt skipurit fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð sem tók gildi 1. janúar 2005 sem tilraun til eins árs. Með hinu nýja skipuriti er verið að fækka um eina stjórnunarstöðu í yfirstjórn Sveitarfélagsins. Breytingin felst í því að verkefni sem áður heyrðu undir framkvæmdastjóra stjórnsýslusviðs var dreift á aðra stjórnendur. Lesa meira

6.1.2005 Fréttir : Fjárhagsáætlun fyrir árið 2005

Fjárhagsáætlun Hornafjarðar fyrir árið 2005 var samþykkt við 2. umræðu 22. desember sl. Þar er launakostnaður afgerandi útgjaldaþáttur í áætluninni með um 68% af skatttekjum og fræðslu og uppeldismál vega þyngst með um 60% af skatttekjum. Heildarvelta bæjarsjóðs, stofnana og fyrirtækja bæjarins (Heilbrigðistofnunar Suðausturlands, Hornafjarðarhafnar, vatnsveitunnar og húsnæðiskerfisins) verður um 1,7 milljarður |nl| Lesa meira


 

Fréttasafn


TungumálÚtlit síðu: