Fréttir

Áramót

31.12.2006 Fréttir : Áramót - grein frá bæjarstóra Hjalta Þór Vignissyni

Árið sem er að líða markaðist mjög af sveitarstjórnarkosningunum í maí sl. Albert Eymundsson kvaddi vettvang sveitarstjórnar í Hornafirði eftir áratuga starf. Hann á skilið miklar þakkir fyrir störf sín í þágu byggðarlagsins og er óskað velfarnaðar á nýjum stað. Miklar breytingar urðu á skipan mála í sveitarfélaginu í kjölfar kosninga. Nýr meirihluti hefur lagt áherslu á málefni fjölskyldunnar, uppbyggingu íþróttamannvirkja og stuðning við atvinnulífið. Af fjölmörgum verkefnum sveitarfélaga eru velferðarmálin stærst, s.s. fræðslu- og uppeldismál. Rekstur fræðslumála er flókin, einkum vegna þess að þarfirnar eru miklar en fjármunirnir takmarkaðir. Því þarf í sífellu að jafna út kröfur um viðbótarþjónustu og þá fjármuni sem eru í sveitarsjóði á hverjum tíma. Fræðslu- og uppeldismál eru mikilvæg fyrir framtíð samfélagsins og gegna lykilhlutverki í að tryggja jafna möguleika einstaklinga til að ná markmiðum sínum í lífinu. Lesa meira
Aðalskipulag breyting 1998-2018

19.12.2006 Fréttir : Tillaga að breytingu á aðalskipulagi 1998-2018

Bæjarstjórn Hornafjarðar auglýsir hér með tillögu að breytingu á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar 1998-2018, samkvæmt 2. mgr. 21. gr. skipulags-og byggingarlaga nr. 73/1997. Breytingin felst í því, að tekið er í notkun nýtt efnistökusvæði vestan Falljökulskvíslar, í landi Sandfells í Öræfum, um 2,0 km. norð-vestan þjóðvegar nr. 1. fyrir allt að 50.000m3, þar af um 33.000m3 af fastri klöpp. Jafnhliða opnun svæðisins verður aflögð grjótnáma við Virkisá í Öræfum. Breytingartillagan verður til sýnis á bæjarskrifstofu Hornafjarðar, Hafnarbraut 27, og í Hofgarði í Öræfum, frá fimmtudeginum 21. des. 2006 til fimmtudagsins 11. janúar, 2007. Þeim, sem telja sig eiga hagsmuna að gæta, er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við breytingartillöguna, eigi síðar en fimmtudaginn 11. janúar, 2007. Lesa meira
Snjór á Höfn 15. janúar 2006

19.12.2006 Fréttir : Niðurstaða fjárhagsáætlunar 2007 jákvæð um 15 m.kr.

Markmið bæjarstjórnar fyrir árið 2007 er að viðhalda þjónustustigi og efla það en jafnframt að halda áfram að reka bæjarsjóð með ábyrgum hætti. Árið 2007 einkennist af miklum framkvæmdum og viðhaldi eigna sveitarfélagsins. Ennfremur eru stigin mikilvæg skref í stuðningi við atvinnulíf. Heildarvelta sveitarfélagsins og tengdra fyrirtækja er áætluð 1.585 m.kr. en heildargjöld 1.466 m.kr. að frádregnum fjármagnsliðum. Fjármagnsliðir eru neikvæðir um 104 m.kr.. Niðurstaðan er því jákvæð um 15 m.kr. Handbært fé frá rekstri er 167 m.kr. Gert er ráð fyrir framkvæmdum upp á 318 m.kr. og lántöku upp á 236 m.kr. Afborganir langtímalána eru 114 m.kr. Handbært fé í árslok 2007 er áætlað 49 m.kr. Lesa meira
Frá sundæfingu

15.12.2006 Fréttir : Sundlaugin fer í jólafrí 17. desember

Síðasta opnunardagur sundlaugarinnar fyrir áramót er sunnudagurinn 17.desember. Eftir það verður lauginni lokað fram til mánudagsins 8.janúar á næsta ári. Þennan síðasta sunddag fyrir jól verða jólalögin leikin og gestir fá gott í skóinn. Meðan á lokun stendur verður unnið að viðhaldi í lauginni að venju. Á þessu ári hafa um 25,000 gestir komið í sundlaugina en það er nokkur fækkun frá fyrra ári. Að venju var aðsókn mest á sumarmánuðum. Sundlaugin á sína fastagesti sem flestir taka daginn snemma og fá sér sundsprett og láta líða úr sér í pottunum áður en gengið er til daglegra starfa. Lesa meira
Jólatréð 2004

28.11.2006 Fréttir : Jólaljósin tendruð

Á sunnudaginn kemur kl. 17:00 verða ljósin tendruð á jólatré Hornafjarðar í miðbænum skammt frá Sindrahúsinu. Við athöfnina leikur Lúðrasveit Hornafjarðar jólalög undir stjórn Jóhanns Morávek. Samkór Hornafjarðar syngur undir stjórn Kristínar Jóhannesdóttur og leikskólabörn taka lagið. Von er á fleiri góðum gestum í heimsókn. Samkvæmt upplýsingum frá Grýlu gömlu er fyrstu jólasveinarnir farnir að hugsa sér til hreyfings til byggða og er ekki ólíklegt að þeir taki stefnuna í miðbæinn þegar þeir sjá ljósin á trénu. Lesa meira
Haukur Ingi

23.11.2006 Fréttir : Haukur Ingi ráðinn sem framkvæmdastjóri tækni- og umhverfissviðs.

Bæjarráð ákvað á síðasta fundi að ráða Hauk Inga Einarsson, hagfræðing, sem framkvæmdastjóra tækni- og umhverfissviðs. Haukur Ingi er fæddur 1980 og hefur starfað sem fyrirtækjaráðgjafi hjá Kaupþing banka. Um langt árabil bjó hann á Hornafirði og spilaði m.a. knattspyrnu fyrir Sindra við góðan orðstír. Unnusta Hauks er Berglind Steinþórsdóttir, frá Hala í Suðursveit.Þau eiga Tómas Nóa sem er 2ja ára og svo munu þau fjölga Hornfirðingum í mars því þá eiga þau von á barni. Berglind er að ljúka námi í ferðamálafræðum við Háskóla Íslands. Foreldrar Hauks eru Einar Sveinn Ingólfsson og Ingibjörg Hauksdóttir sem eru flestum Hornfirðingum góðkunn. Lesa meira
Samfes_2006 þrykkjan

11.10.2006 Fréttir : Þrykkjan á fleygi ferð

Krakkarnir sem sóttu landsmót SAMFÉS eru komin heim eftir skemmtilega og uppbyggjandi ferð. Þau sóttu ýmsar smiðjur t.d. dans, ljósmynda, og hljóðfærasmiðjur. Á mótinu var Þyrí Imsland kjörin í Ungmennaráð SAMFÉS en hlutverk þess er að taka þátt í mótun stærri viðburða á landsvísu. Á fimmtudaginn verður haldið hið árlega Sundstuð Þrykkjunnar í sundlauginni. Þá fyllast allir pottar og laugarkerið af fjörmiklum krökkum og farið er í ýmsa skemmtilega leiki, spiluð tónlist og sett upp skrautljós. Á föstudaginn er ráðgert að halda með 10. bekkinga á svonefnt Fjarðaball sem að þessu sinni er haldið á Seyðisfirði. Þar spilar hljómsveitin Á móti sól en með henni syngur enginn annar en Magni sem gerði garðinn frægan í RockStar þáttunum. Á Fjarðaballi koma saman unglingar af öllum austfjörðum. Á næstunni hefst undirbúningur fyrir Hrekkjavökuna (Draugahúsið) sem er alltaf mjög spennandi. Á milli þessara stóru viðburða hittast krakkarnir í Þrykkjunni og taka sér ýmislegt fyrir hendur. Lesa meira
Frá kvennahlaupinu 2004

15.9.2006 Fréttir : Allt hefur áhrif –einkum við sjálf

Þessi yfirskrift eru einkunnarorð þróunarverkefnis sem Sveitarfélagið Hornafjörður , ásamt 24 öðrum sveitarfélögum er að vinna í samvinnu við Lýðheilsustöð. Markmiðið með verkefninu er að bæta lífshætti barna og fjölskyldna þeirra. Aðaláherslan er lögð á hreyfingu og góða næringu. Með verkefninu er leitast við að vekja fólk til umhugsunar um heilsuna, standa fyrir fræðslu um það sem hefur áhrif á heilsuna, skoða hvaða þættir sem hafa áhrif á heilsuna eru í lagi og hvaða þætti er hægt að bæta í sveitarfélaginu og virkja sem flesta á öllum aldri til að eiga hlutdeild í verkefninu. Lesa meira
Senn hefst skólinn (úr myndasafni)

13.9.2006 Fréttir : Útivistartíminn breyttist 1. september

Reglur um útivistartíma barna og unglinga, skv. barnverndarlögum, breyttust 1. september. Frá 1. september til 1. maí mega börn 12 ára og yngri vera úti til kl. 20 en 13 – 16 ára börn mega vera úti til kl. 22. Mikilvægt er að árétta að þetta er sá tími sem þau mega vera úti, foreldrar og forráðamenn geta að sjálfsögðu þrengt þennan tímaramma. Það skiptir miklu máli fyrir vellíðan barna að foreldrar standi saman um að halda útivistarreglurnar t.d. hvað varðar svefn, slys og einnig dregur það úr líkum á að börnin fari að fikta við áfengi eða önnur vímuefni að útivistarreglunum sé fylgt. Vonandi er svona segulspjald á ísskápnum heima hjá ykkur til að minna á mikilvægi þess að standa saman í því að virða útivistarreglurnar. Lesa meira
Dugnaðurinn ræður ríkjum í skólagörðunum (úr myndasafni)

17.8.2006 Fréttir : Uppskeruhátíð skólagarðanna

Eins og undanfarin sumur hefur Hornafjarðarbær starfrækt skólagarða fyrir krakka á aldrinum 7 – 12 ára. Í ár voru þátttakendur 17 sem er aðeins færra en síðustu ár. Starfið hefur gengið vel og hafa krakkarnir staðið sig með stakri prýði. Mæting hefur verið mjög góð og uppskeran eftir því. Á þriðjudaginn 15. ágúst, var haldin uppskeruhátíð. Yfirmenn skólagarðanna grilluðu fyrir krakkana og glatt var á hjalla. Eftir það voru veitt verðlaun fyrir besta garðinn og bestu ástundunina. Þeir sem fengu verðlaun voru Birgitta Karen Sveinsdóttir og Rannver Olsen. Einnig fengu allir krakkarnir viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna í sumar. Lesa meira
Vinnuskólaferð 2006 (@Bjarni Ólafur)

31.7.2006 Fréttir : Haukafellsferð og rústapartý Vinnuskóla Hornafjarðar

Þriðjudaginn 25. júlí var farið í hina árlegu útilegu Vinnuskólans í Haukafell. Ferðin hefur verið uppskeruhátíð Vinnuskólans að loknu erfiði sumarsins. Eins og við var að búast af krökkunum fór ferðin ótrúlega vel fram. Veðrið var ótrúlega gott og allir í góðu skapi. Í ferðinni var gert margt skemmtilegt eins og t.d hoppað í ána, grillaðir hamborgarar, spilaður fótbolti og að lokum var brekkusöngur og varðeldur. Það var mál flestra að ferðin hafi verið í betri kantinum og vonum við að allir hafi skemmt sér vel því það er jú tilgangurinn með þessari ferð okkar að skemmta okkur saman eftir erfiði sumarsins. Eins og þeir sem horfðu á Mastrið vita þá var rústapartý Vinnuskólans fimmtudaginn 20. júlí. Margar helstu hljómsveitir Hornafjarðar spiluðu og stóð þar uppúr endurkoma stórhljómsveitarinnar Parket sem hefur ekki sést spila saman í aldaraðir. Þar var fremstur í flokki Friðrik "danaprins" sem gerði sér ferð heim til að koma fram. Lesa meira
Vinnuskólinn

26.6.2006 Fréttir : Vinnuskóli Hornafjarðar kominn á fullt skrið

Eins og flestir hafa tekið eftir er Vinnuskóli Hornafjarðar kominn á fullt skrið og hefur bærinn okkar verið að taka á sig blómlegan svip. Þegar eru um 30 unglingar komnir til starfa og hafa þau auk ruslatínslu, hreinsun beða, sláttar og annarra hefðbundinna sumarstarfa einnig unnið við sléttun undir sáningu og þökulagningu. |nl|Eitt af markmiðum Vinnuskólans er að undirbúa unglingana fyrir almennan vinnumarkað. Sem liður í þeim markmiðum voru haldin fræðslunámskeið fyrir starfsmenn Vinnuskólans mánudaginn 12. júní og fimmtudaginn 22. júní í fyrirlestrarsal Sindrabæjar. Mánudaginn 12. júní var Guðbrandur Jóhannsson með námskeið í skyndihjálp, Borgþór Freysteinsson, eldvarnareftirlitsmaður og heilbrigðisfulltrúi fræddi unglingana um eldvarnir, meðferð slökkvitækja og þær hættur sem geta leynst í umhverfinu, verkstjóri Vinnuskólans Gísli Örn Reynisson fór yfir helstu verkefni sumarsins og hvernig vinnunni yrði háttað þetta sumarið, Haukur Þorvaldsson ræddi um félags og forvarnarþátt skólans, Rannveig Einarsdóttir garðyrkjufræðingur fræddi unglingana um umhverfið og náttúruna ásamt því að fara yfir umhirðu blóma og beða og að lokun sýndi Hulda Laxdal unglingunum rétta líkamsbeitingu við vinnu. Lesa meira
Kvennahlaupid_2006_(Haukur)

14.6.2006 Fréttir : Stýrihópur um lýðheilsu

Allt hefur áhrif - einkum við sjálf! Þetta eru einkunnarorð þróunarverkefnis sem Sveitarfélagið Hornafjörður, ásamt 24 öðrum sveitarfélögum er að vinna í samvinnu við Lýðheilsustöð. Markmiðið er að bæta lífshætti barna og fjölskyldna þeirra. Aðaláhersla er á hreyfingu og góða næringu Með verkefninu er leitast við að: Vekja fólk til umhugsunar um heilsu, Standa fyrir fræðslu um það sem hefur áhrif á heilsu, Skoða hvaða þættir sem hafa áhrif á heilsu eru í lagi og hvaða þætti er hægt að bæta í sveitarfélaginu og virkja Virkja sem flesta, á öllum aldri, til að eiga hlutdeild í verkefninu. Lesa meira
LungA_merki

6.6.2006 Fréttir : Bæjarráð styrkir ungt fólk til þátttöku á Listahátíð á Seyðisfirði

Bæjarráð Hornafjarðar hefur samþykkt 25 þúsund króna framlag til að styðja unga Hornfirðinga til þátttöku í Listahátíð ungs fólks Austurlandi, LungA sem haldin verður dagana 17.-23. júlí nk. á Seyðisfirði. Hátíðin er ætluð ungmennum á aldrinum 16 – 25 ára og er samblanda af fræðslu og skemmtun. Boðið er upp á 7 mismunandi listasmiðjur og fjölbreytta dagskrá alla dagana. LungA hlaut menningarverðlaun SSA fyrir árið 2004 og Eyrarrósina í janúar. Umsóknir berist á bæjarskrifstofur Hornafjarðar fyrir 20. júní. Nánari upplýsingar veitir Ólafía I.Gísladóttir. Lesa meira
Geir Þorsteinsson byggingarverktaki er meðal þeirra Hornfirðinga sem nýta sér reiðhjólið

19.5.2006 Fréttir : Hjólað í vinnuna - Hornafjörður í 6 sæti

Nú liggja endanleg úrslit fyrir í verkefninu Hjólað í vinnuna 2006. Verkefnið er liður í fræðslu og hvatningarverkefni ÍSÍ, Ísland á iði. Glæsilegur árangur náðist í heildina og voru öll þau met sem hægt var að slá sleginn. Alls áttu 246 vinnustaðir frá 34 sveitarfélögum lið í Hjólað í vinnuna í ár. Farnir voru hvorki meira né minna en 230,543 km eða 172,18 hringir í kringum landið. Til samanburðar þá voru farnir í fyrra 173.762 km eða 129,8 hringir í kringum landið. Ferðamáti var í 59,98% tilfella á hjóli, 38,37% gangandi, 1,18% með strætó, 0,17% á línuskautum og í 0,29% ferða nýttu þátttakendur eigin orku á annan hátt. |nl|Hér á Hornafirði tóku 6 vinnustaðir þátt í verkefninu og hjóluðu starfsmenn þeirra alls 2666 km. í 850 daga sem dugði í 6. sæti fyrir sveitarfélagið í heildina. Lesa meira
Hreinsunardagur Hafnarskóla 2005

19.5.2006 Fréttir : Umhverfishreinsunarátak í þéttbýli Hafnar og Nesjum

Helgarnar 20.-21. og 27.-28. maí verður áframhaldandi hreinsunarátak í þéttbýli Hafnar og Nesjum. Garðeigendur og lóðahafar eru hvattir til þess að hreinsa til á lóðum sínum og einnig að líta til nánasta umhverfis. Á Leirusvæði má einungis losa ómengaðan jarðveg s.s grjót, möl, sand, leir, mold, ójárnbundin steypu- og múrbrot, hellur og aðrar smærri framleiðslueiningar úr steinsteypu. Ekki má losa garðaúrgang á Leirusvæði heldur verður losun garðaúrgangs inní Fjárhúsavík (gömlu ruslahaugunum inná Ægissíðu). Óskað er eftir því að fólk flokki garðaúrgang í þrjá flokka: 1 gras, 2 trjágreinar og afklippur, 3 annar garðaúrgangur s.s blómaafskurður, illgresi, þökuafgangar og mold í minna mæli. Mikilvægt er að garðaúrgangurinn sé ekki blandaður öðrum úrgangi þar sem hann verður nýttur til jarðgerðar eða landgræðslu. Munið því að tæma úr pokum. Lesa meira
Öræfajökull og Jökulsárlón með merki Sveitarfélagsins Hornafjarðar

16.5.2006 Fréttir : Góð afkoma hjá Sveitarfélaginu Hornafirði árið 2005

Ársreikningur Sveitarfélagsins Hornfjarðar og tengdra fyrirtækja fyrir árið 2005 var lagður fram í bæjarstjórn 11. maí sl. Í endurskoðunarskýrslu kemur fram að innra eftirlit hjá sveitarfélaginu sé virkt og starfsmenn og stjórnendur séu meðvitaðir um mikilvægi þess. Jafnframt segir að allar kennitölur beri með sér trausta fjárhagsstöðu og rekstur. Samkvæmt þessu má fullyrða að rekstur og afkoma sveitarfélagsins var í mjög góðu horfi árið 2005. Afkoma samstæðunnar er 74,0 m.kr. betri en árið 2004. Langtímaskuldir lækka milli ára um 81,6 m.kr. Ef aðeins er litið á A-hluta, bæjarsjóð, þá er hagnaður ársins 105,5 m.kr. Langtímaskuldir A-hluta eru 565,8 m.kr. og lækka milli ára um 71,0 m.kr. Lesa meira
Jón Kristján Rögnvaldsson

9.5.2006 Fréttir : Jón Kristján til starfa sem félagsmálastjóri Hornafjarðar

Í gær tók Jón Kristján Rögnvaldsson til starfa sem félagsmálastjóri Hornafjarðar. Jón Kristján hefur nýverið lokið námi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Forveri hans í starfi Félagsmálastjóra Hornafjarðar var Birgir Þ. Kjartansson sem nú hefur sótt á önnur mið. Jón Kristján er ættaður frá Akureyri en hélt síðan til náms í Reykjavík þar sem hann hefur búið undanfarin fjögur ár við nám og störf. Hann flytur til Hornafjarðar ásamt sambýliskonu sinni Eyrúnu Unni Guðmundsdóttur og dóttur þeirra. Eyrún er einnig útskrifuð úr félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. |nl| Lesa meira
Albert bæjarstjóri tilbúin á hjólinu

2.5.2006 Fréttir : Átak ÍSÍ “Hjólað í vinnuna” hefst á morgun 3. maí

Æskulýðs- og tómstundaráð Hornafjarðar vill vekja athygli á þessu verkefni og hvetja vinnustaði á Hornafirði til þátttöku. Þetta er fyrirtækjakeppni og er meginmarkmið verkefnisins að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum , hagkvæmum og umhverfisvænum samgöngumáta. Keppnin er byggð í kringum heimasíðu verkefnisins sem er vistuð á isisport.is. Keppt er í 6 fyrirtækjaflokkum um flesta daga og flesta kílómetra, hlutfallslega miðað við fjölda starfsmanna í fyrirtækjum. Gott er að einn í hverju fyrirtæki haldi utan um verkefnið. Allir þeir sem nýta eigin orku til að koma sér til vinnu s.s. hjóla eða ganga geta tekið þátt. Aðalatriðið að fá sem flesta með, sem oftast. Þátttaka hefur tvöfaldast á milli ára og tífaldast þau þrjú ár sem verkefnið hefur farið fram. Lesa meira
Hreinsunardagur Hafnarskóla 2004

29.4.2006 Fréttir : Höldum bænum okkar hreinum og snyrtilegum

Tækni- og umhverfissvið vill koma á framfæri þakklæti til bæjarbúa vegna samstöðu við árlega vorhreinsun í sínu nánasta umhverfi. Í tilefni af opinberri heimsókn forseta Íslands óskuðum við eftir því við forstöðu- og umsjónarmenn opinberra stofnana, sem og bæjarbúa alla, að taka saman höndum og gera vorhreingerningu á lóðum sínum, runnum, beðum og nánasta umhverfi í fyrra falli þetta vorið. Að okkar mati hefur það skilað árangri og má greinilega víða sjá árangur erfiðisins, þó svo að víða sé enn þá ýmsu ábótavant. Því langar okkur að hvetja til áframhaldandi átaks og halda bænum okkar hreinum og snyrtilegum. Starfsmenn Áhaldahúss geta lagt garðeigendum lið. Hafa má samband við tækni- og umhverfissvið og við munum gera það sem við getum til að aðstoða. Lesa meira
Albert Eymundsson, bæjarstjóri

23.4.2006 Fréttir : Hvatning til íbúa!

Ágætu íbúar! Forseti Íslands og forsetafrú koma í opinbera heimsókn í Austur-Skaftafellssýslu dagana 25. og 26.apríl. Við skulum taka vel á móti góðum gestum. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt í dagskrá heimsóknarinnar eins og kostur er, draga þjóðfánann að húni meðan á heimsókninni stendur og nota tækifærið til að huga að fegrun og snyrtingu á sínu nánasta umhverfi. Ég vil sérstaklega hvetja alla Austur-Skaftfellinga til að sækja fjölskylduhátíðina í Íþróttahúsinu á Höfn að kvöldi þriðjudagsins 25. apríl. Lesa meira
Ný Sundlaug á Höfn_teikning

15.4.2006 Fréttir : Gert er ráð fyrir 36 fermetra vaðlaug og tveimur pottum

Bæjarstjórn hefur samþykkt meðfylgjandi teikningar af sundlaug við Heppuskóla. Um er að ræða 25 metra langt sundlaugarker sem er 8,5 metrar á breidd. Þar er einnig gert ráð fyrir 36 fermetra vaðlaug og tveimur staðsteyptum pottum, hvor 10 manna. Sambyggt sundlaugarkerinu er síðan lendingarker fyrir vatnsrennibraut 4 x 6 metrar og gert er ráð fyrir minni rennibraut og vatnsleikjatækjum í vaðlaug. Möguleiki er því á að skipta lauginni upp í tvö svæði auk þess sem hægt er að synda bæði 12, 5 metra og 25 metra. Í fyrsta áfanga, sem áætlað er að verði tilbúinn um sumarið 2007, er gert ráð fyrir tveimur tvöföldum búningsklefum, með aðstöðu fyrir fatlaða, gufubaði, starfsmannaðstöðu og móttöku. Einnig verður tækjakjallari undir mannvirkinu að hluta. Stærð byggingarinnar er um 400 fermetrar auk tækjakjallara. Samþykkt hefur verið að heildarkostnaður mannvirkisins verði um 330 mkr. Lesa meira
Forseti Íslands

12.4.2006 Fréttir : Forsetaheimsókn 25. og 26. apríl

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og eiginkona hans Dorrit Moussaieff koma í opinbera heimsókn í Austur-Skaftafellssýslu 25. og 26.apríl næstkomandi. Þriðjudaginn 25. apríl heimsækja forsetahjónin og fylgdarlið skóla, fyrirtæki og stofnanir á Höfn og dagskránni lýkur þann dag með fjölskylduhátíð í Íþróttahúsinu kl. 20:00 til heiðurs forsetahjónunum og eru allir velkomnir þangað. Miðvikudaginn 26. apríl halda forsetahjónin fyrst upp í Lón um Almannaskarðsgöngin og til baka um Almannaskarð að Seljavöllum í Nesjum. Þaðan liggur leiðin út í Nýheima á Höfn þar sem forsetinn mun ávarpa málþing um skapandi atvinnugreinar. Lesa meira
Veraldarvinir

12.4.2006 Fréttir : Sveitarfélagið auglýsir eftir fólki í sumarstörf við Vinnuskóla

Þessa dagana er Tækni- og umhverfissvið sveitafélagsins að auglýsa eftir fólki í sumarstörf, um er að ræða störf sem öll tengjast Vinnuskólanum sem sveitarfélagið starfrækir á hverju sumri. Þau störf sem eru í boði: Verkstjóri Vinnuskólans, starfið felst í stjórn Vinnuskólans, skipulagningu og umsjón verkefna í samráði við deildarstjóra á tækni- og umhverfissviði. Umsækjendur þurfa að vera 20 ára eða eldri, hafa uppeldismenntun og/eða reynslu af umgengni við unglinga. Einnig er reynsla af stjórnun verkefna og almennum garðyrkjustörfum æskileg. Einnig er auglýst eftir Flokksstjórum í Vinnuskólann á Höfn og í Nesjum. Það starf felst í að vinna með unglingum, aðallega í umhirðu grænna svæða. Einnig er æskilegt að umsækjendur séu 20 ára eða eldri, hafi uppeldismenntun og/eða reynslu af umgengni við unglinga sem og reynslu af almennum garðyrkjustörfum. Lesa meira
Við smábátahöfnina

6.4.2006 Fréttir : Opinn borgarafundur í Nýheimum

Opinn borgarafundur á vegum Sveitarfélagsins Hornafjarðar um endurskoðun á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar verður haldinn í Nýheimum í kvöld, fimmtudaginn 6.apríl og hefst fundurinn kl. 20:00. Á fundinum verða meðal annars kynntar breytingartillögur á þjóðvegi 1. Fulltrúar sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar munu gera grein fyrir tillögum og svara spurningum fundargesta. Ætla má að þetta verði fjölmennur fundur þar sem menn hafa ekki verið á eitt sáttir með þær breytingar sem áætlað er aðverði á vegstæði í Öræfum og við Hornafjarðarfljót. Lesa meira
Aðalskipulag

24.3.2006 Fréttir : Tillaga að breytingu á aðalskipulagi

Bæjarstjórn Hornafjarðar auglýsir hér með tillögu að breytingu á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar 1998 – 2018, skv. 1. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Breytingin felst í því að tveimur lóðum við Hvannabraut 3 – 5 verði breytt úr íbúðarsvæði í verslunar og þjónustusvæði. Lóðirnar er um 1.840 fermetrar og á henni hefur hin síðustu ár verið starfrækt dvalarheimili fyrir aldraða á vegum sveitarfélagsins. Breytingartillagan verður verður til sýnis á bæjarskrifstofu Hornafjarðar, Hafnarbraut 27, á venjulegum opnunartíma, frá og með fimmtudeginum 23. mars 2006, til og með fimmtudeginum 13 apríl 2006. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við breytingartillöguna. Frestur til að skila inn athugasemdum er til fimmtudagsins 13. apríl 2006 Lesa meira
Sundlaugin á Höfn

3.2.2006 Fréttir : Sundlaugin opnar - frítt í sund

Nú er lokið dúkskiptum í sundlauginni og verður hún opnuð laugardag. Nýi dúkurinn var keyptur frá Á. Óskarssyni og sá fyrirtækið Pappi ehf. um að leggja hann með dyggri aðstoð starfsmanna laugarinnar og annarra starfsmanna sveitarfélagsins. Við framkvæmdina þurfti m.a. að byggja yfir laugarkerið til að skapa góða vinnuaðstöðu. Verkið tók lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir og spilaði þar ýmislegt inn í eins og vill verða við endurnýjun gamalla mannvirkja. Í þessari aðgerð var steypufylling tekin úr rennunum og þær færðar í upprunalegt horf og bætt við niðurföllum til að auðvelda að þær hreinsi sig. Þetta er sennilega þriðja klæðningin sem fer á laugarkerið. Upphaflega var kerið steypt síðan var það trefjahúðað svo dúkklætt og nú þessi síðasta aðgerð. Í tilefni af því að nýi dúkur er kominn í laugina og dráttur varð á opnun laugarinnar er öllum bæjarbúum boðið í sund á opnunardaginn. Lesa meira
Snjór á Höfn 15. janúar 2006

17.1.2006 Fréttir : Viðmið og verklag vegna snjómoksturs og hálkueyðingar

Hjá Sveitarfélaginu Hornafirði er það áhaldahús sér almennt um hálkueyðingu og snjómokstur í sveitarfélaginu. Verkstjóri áhaldahúss eða yfirmenn hans meta aðstæður hverju sinni og ráða aðra verktaka eftir þörfum. Hafa skal eftirfarandi verklagsreglur til viðmiðunar. Varðandi snjómokstur þá fer Vegagerðin fer eftir þeirri leið sem kallast þjóðvegur í þéttbýli þ.e. frá hafnarbakka við Álaugarey norður Sæbraut að gatnamótum við Álaugarveg til vesturs og eftir Víkurbraut til norðurs að gatnamótum Hafnarbrautar og til norðurs út úr bænum. Um er að ræða einfalda braut. Áhaldahús ryður síðan betur þessa leið, þ.e. tvíbreitt og fer síðan í aðrar hliðargötur þar sem áhersla er lögð á stofnanir sveitarfélagsins s.s. Lesa meira
Frá sundæfingu

12.1.2006 Fréttir : Vonir standa til að hægt verði að opna sundlaugina seinnipartinn í þessum mánuði

Undanfarið hefur verið unnið að almennu viðhaldi og undirbúningi að dúkaskiptum í sundlauginni. Vonir standa til að hægt verði að opna laugina almenningi seinnipartinn í þessum mánuði ef ekkert sérstakt tefur framkvæmdir. Staðfestur opnunartími verður auglýstur í fjölmiðlum. Framkvæmdahópur um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Hornafirði hélt fund í fyrri viku með starfsmönnum íþróttamannvirkja þar sem farið var yfir þær hugmyndir og upplýsingar sem uppi eru um nýbyggingu sundlaugar og hvernig best sé að tengja hana við íþróttahúsið. Að sögn formanns framkvæmdahópsins Friðriks Ingvaldssonar formanns æskulýðs- og tómstundaráðs er reiknað er með að ný sundlaug verði staðsett vestan við íþróttahúsið á Höfn og hefur hópurinn undanfarið verið að við að sér upplýsingum um sundlaugarmannvirki víðsvegar að af landinu. Lesa meira


 

Fréttasafn


TungumálÚtlit síðu: