Fréttir

Þrykkjan á fleygi ferð

11.10.2006 Fréttir

Samfes_2006 þrykkjan

Krakkarnir sem sóttu landsmót SAMFÉS eru komin heim eftir skemmtilega og uppbyggjandi ferð. Þau sóttu ýmsar smiðjur t.d. dans, ljósmynda, og hljóðfærasmiðjur. Á mótinu var Þyrí Imsland kjörin í Ungmennaráð SAMFÉS en hlutverk þess er að taka þátt í mótun stærri viðburða á landsvísu. Á fimmtudaginn verður haldið hið árlega Sundstuð Þrykkjunnar í sundlauginni. Þá fyllast allir pottar og laugarkerið af fjörmiklum krökkum og farið er í ýmsa skemmtilega leiki, spiluð tónlist og sett upp skrautljós. Á föstudaginn er ráðgert að halda með 10. bekkinga á svonefnt Fjarðaball sem að þessu sinni er haldið á Seyðisfirði. Þar spilar hljómsveitin Á móti sól en með henni syngur enginn annar en Magni sem gerði garðinn frægan í RockStar þáttunum. Á Fjarðaballi koma saman unglingar af öllum austfjörðum. Á næstunni hefst undirbúningur fyrir Hrekkjavökuna (Draugahúsið) sem er alltaf mjög spennandi. Á milli þessara stóru viðburða hittast krakkarnir í Þrykkjunni og taka sér ýmislegt fyrir hendur.

Búið er að stofna fjölmiðla- íþrótta- borðtennisklúbba. Þá eru rokkhljómsveitir að æfa á Þrykkjusvæðinu. En þær hafa sumar gert það gott á landsvísu. Eftir áramót verður söngvakeppni SAMAUST (Samtök félagsmiðstöðva á Austurlandi) haldin í íþóttahúsinu og sér Þrykkjan um það. Hvetjum alla til að koma í heimsókn í Þrykkjuna.

-HHÞ

Senda grein

 

Fréttasafn


TungumálÚtlit síðu: