Fréttir

Samningur við Sindra undirritaður

21.1.2008 Fréttir

Undirritun smnings við Sindra

Í Pakkhúsinu í gær var undirritaður nýr þriggja ára samningur Sveitarfélagsins við UMF Sindra. Með því eykur Sveitarfélagið umtalsvert við stuðning sinn við félagið. Markmiðið er að fylgja sem best eftir mikilli uppbyggingu á íþróttamannvirkjum í sveitarfélaginu. Samningurinn byggir á fyrri samningum sem þessir aðilar hafa gert sín á milli en hinn nýi leggur áherslu á að Sindri geti eflt enn frekar æskulýðsstarf á sínum vegum, þróað íþróttaviðburði, eflt jaðaríþróttir, tekið upp markvisst samstarf við önnur félög á svæðinu og að Sindri móti sér forvarnar- og lýðheilsustefnu og verði leiðandi í þeim málaflokki í sveitarfélaginu.
Fjögur erindi voru flutt við þetta tilefni. Matthildur Ásmundardóttir, formaður æskulýðs- og tómstundaráðs, sagði frá hlutverki og starfi ráðsins á yfirstandandi kjörtímabili. Hún lagði áherslu á að markmið væri að tryggja sem mesta fjölbreytni í íþrótta- og tómstundastarfi. Þá ræddi hún um mikilvægi hreyfingar fyrir alla aldurshópa. Þar ræddi hún um brýna þörf á að fólk á miðjum aldri, þó sérstaklega karlmenn, þyrftu að hreyfa sig meira. Hún sagði að nýr frjálsíþróttavöllur hefði sannað gildi sitt í því að margir íbúar noti hann til hreyfingar.

Í kjölfarið ræddi Ásgrímur Ingólfsson, formaður Sindra, um hlutverk Sindra í samfélaginu. Hann hóf mál sitt á að ræða um rekstur og starfsemi Sindra sem að nær öllu leyti er unnið í sjálfboðavinnu og að félagið geti aldrei orðið stærra en fólkið vill hverju sinni. Árangurinn byggist á þátttöku foreldra og annarra sem áhuga hafa á að efla líkamlegan og andlegan þroska barna og fullorðinna. Ásgrímur sagði jafnframt að eitt mikilvægasta hlutverk ungmennafélaga að auka samkennd og vináttu meðal okkar allra og nefndi framkvæmd Unglingalandsmóts sem gott dæmi.

Arna Ósk Harðardóttir fjallaði um þátttöku fjölskyldu sinnar í íþróttastarfi og lagði áherslu á mikilvægi þess að foreldrar styttu börnin sín alla leið. Mikilvægt væri að hlúa jafnvel að unglingum og börnum. Stuðningur foreldra væri oft mest fyrst þegar krakkarnir væru að hefja þátttöku sína í skipulögðu íþróttastarfi en dvínaði mikið þegar þau yxu úr grasi. Hún taldi að unglingarnir vildu gjarnan að foreldrarnir fylgdust með þeim í keppni og æfingum- þrátt fyrir að þau segðu oft annað. Þá væri að minnsta kosti hægt að ræða um frammistöðuna þegar heim væri komið.

Að endingu flutti Jóhann Bergur Kiesel málin út frá sjónarhorni ungmenna. Sagðist hann hafa rætt við allmarga félaga sína undanfarna daga sem öll luku einu máli upp að mikið væri að gerast á sviði íþrótta, bæði hvað varðar aðstöðusköpun og starfsemi. Hins vegar sagðist hann hafa áhyggjur af félagslífi ungmenna hér á staðnum sem gera þyrfti bót á. Ræddi hann einnig um Þrykkjuna og meta þyrfti hvort breytinga væri þörf, til að auka aðdráttarafl hennar. Hann greindi frá starfi Nemendafélags FAS sem sé með líflegra móti þetta árið.

- Frétt: Blogsíða Hjalti Þór Vignisson

Senda grein

 

Fréttasafn


TungumálÚtlit síðu: