Fréttir

Heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni – málþing

27.3.2008 Fréttir

heilso3

Fimmtudaginn 3. apríl boða bæjarstjórn Hornafjarðar og Heilbrigðis- og öldrunarráð Hornafjarðar til málþings í Nýheimum um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Málþingið hefst kl. 09:00 í Nýheimum með setningarávarpi Guðlaugs Þór Þórðarsonar heilbrigðisráðherra.
Þessi mál hafa verið í miklum brennidepli hér á Hornafirði þar sem sveitarfélagið hefur stýrt þessum málaflokki í gegnum þjónustusamning við heilbrigðisráðuneytið. Á málþinginu verður rætt um þann mun sem er á uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni annars vegar og á fjölmennari stöðum landsins hins vegar. Einnig verður fjallað um hvaða starfsemi er mikilvægt að byggja upp heima fyrir og hvernig samskipti landsbyggðar við Landspítala Háskólasjúkrahús verði best háttað. Á málþinginu mun Óttar Ármannsson, formaður Félags dreifbýlislækna greina frá starfsumhverfi lækna á landsbyggðinni. Þá mun Anna Björg Aradóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu fjalla sérstaklega um starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga. Starfsmenn HSSA munu síðan gera grein fyrir þróun þjónustunnar á vegum HSSA og þeirri starfsemi sem þar fer fram í dag. Að loknum erindum taka vinnuhópar til starfa og munu ræða ýmsa þætti sem tengjast málefninu. Í vinnuhópunum verður t.d. fjallað um rekstrarform heilbrigðisstofnana, verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, starfsumhverfi heilbrigðisstétta á landsbyggðinni, aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónustu og margt fleira. Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar Alþingis, mun í lok málþingsins taka umræður dagsins saman og flytja lokaerindi málþingsins.

Brýnt er fyrir alla aðila, stjórnmálamenn, stjórnendur, starfsfólk og notendur að skiptast á skoðunum og bera saman bækur sínar um hvernig best er staðið að uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Áhugafólk er því hvatt til að mæta á málþingið og taka þátt í því.

Dagskrá:

9.30 Ávarp Guðlaugs Þ. Þórðarsonar heilbrigðisráðherra
10.00 Heilbrigðisþjónusta í dreifbýli - Sigurður Guðmundsson landlæknir
10.45 Hlé
11.00 Sjónarhorn lækna - Óttar Ármannsson, formaður Félags landsbyggðalækna
11.35 Sjónarhorn hjúkrunarfræðinga - Anna Björg Aradóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu
12.2 Hádegishlé
13.00 Kynning á starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands
Ásgerður Gylfadóttir og Ester Þorvaldsdóttir hjúkrunarstjórar og Guðrún Júlía Jónsdóttir framkvæmdastjóri
14.00 Vinnuhópar
14.45 Hópar skila niðurstöðum
15.30 Lokaorð - Ásta Möller formaður Heilbrigðisnefndar Alþingis
16.00 Fundarlok

Fundarstjóri: Árni Rúnar Þorvaldsson, forseti bæjarstjórnar og formaður Heilbrigðis- og öldrunarráðs Hornafjarðar.

Upplýsingar um flug
Þátttakendur geta flogið fram og til baka milli Reykjavíkur og Hornafjarðar samdægurs.
Flugfélagið Ernir flýgur á fimmtudögum kl. 7.30 frá Reykjavík til Hafnar og
frá Höfn til Reykjavíkur kl. 17.30 síðdegis.
Síminn hjá Flugfélaginu Ernir er 562 4200 og veffangið er www.ernir.is.

Skráning: olafia@hornafjordur.is

Senda grein

 

Fréttasafn


TungumálÚtlit síðu: