Fréttir

Vinnuskóli Hornafjarðar í fulla starfsemi

3.6.2008 Fréttir

Vinnuskólinn

Nú líður senn að því að unglingar í 8., 9. og 10. bekk hefja störf við vinnuskóla Hornafjarðar. Flokkstjórar eru þegar byrjuð að undirbúa vinnuskólann og sláttuhópur er byrjaður að slá opin svæði. Unglingarnir hefja vinnu mánudaginn 9. júní og vinna að því að halda bænum snyrtilegum fram að mánaðarmótum júlí/ágúst. Helstu verkefni vinnuskólans sumarið 2008 verða með hefðbundnu sniði svo sem að hirða upp rusl, snyrta opin svæði, raka eftir sláttuhóp, viðhalda beðum, halda gangstéttum snyrtilegum, þökulagning og önnur tilfallandi verkefni. Jafnframt verður lögð áhersla á að viðhalda göngustígum í Óslandi og Ægisíðu, mála grindverk, leiktæki og staura fyrir umferðarmerki.

Umsjónaraðilar vinnuskólans í ár eru þau Halldór Steinar Kristjánsson og Hjördís Edda Olgeirsdóttir. Allar ábendingar um það sem betur mætti fara eru vel þegnar á netfangið unglingavinna@hornafjordur.is

Sláttuþjónusta fyrir öryrkja og eldriborgara.
Fyrir þéttbýlið Höfn og Nes býðst eldri borgurum og öryrkjum sláttuþjónusta í görðum gegn 4.000 kr. gjaldi. Almenningi býðst sama þjónusta fyrir 9.000. kr. Þeir sem óska eftir sláttuþjónustu eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við afgreiðslu sveitarfélagsins eða senda tölvupóst á unglingavinna@hornafjordur.is

Haukur Ingi Einarsson
Framkvæmdarstjóri tækni- og umhverfissviðs

Tengt efni:

Vinnuskóli 2008

Senda grein

 

Fréttasafn


TungumálÚtlit síðu: