Fréttir

Auglýsing um leyfi til nýtingar við Fjallsárlón

21.5.2014 Fréttir

Sveitarfélagið Hornafjörður vinnur að nýju deiliskipulagi við austurbakka Fjallsárlóns á Breiðamerkursandi skv. skipulagslögum nr. 123/2010. Svæðið nær frá Breiðá í norðri, til suðurs meðfram gömlum árfarvegi, yfir núverandi aðkomuveg og að Fjallsá í vestri. Markmið deiliskipulagsins er að sníða ramma utan um ferðamennsku á svæðinu þannig að hægt verði að taka við fleiri ferðamönnum án þess að umhverfið láti á sjá. Deiliskipulagið gerir m.a. ráð fyrir að komið verði upp nauðsynlegri ferðamannaaðstöðu, svo sem þjónustuhúsi og salernisaðstöðu. Vinna við gerð skipulagsins er langt á veg komin.

 

Sveitarfélagið Hornafjörður hefur ákveðið að auglýsa leyfi til nýtingar á landsvæði í Fjallsárlóni laust til umsóknar. Leyfi til nýtingar er veitt á grundvelli 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Um er að ræða tímabundið leyfi frá 2. júní til 1. nóvember 2014. Handhafi leyfis skuldbindur sig til að greiða gjald vegna leyfis og geta umsækjendur fengið nánari upplýsingar þar að lútandi á skrifstofu sveitarfélagsins.

 

Umrætt svæði er að hluta til í þjóðlendu skv. dómi Hæstaréttar í máli nr. 496/2005 sem kveðinn var upp 11. maí 2006. Enginn má hafa afnot þjóðlendu fyrir sjálfan sig nema að fengnu leyfi ráðherra eða sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlenda og afrétta.

 

Með auglýsingu þessari vill sveitarfélagið lýsa eftir aðilum sem áhuga kunna að hafa á starfsemi sem fellur að umræddri deiliskipulagstillögu og uppfylla þau skilyrði sem kveðið er á um í reglum um úthlutun leyfa til nýtingar í þjóðlendum í Sveitarfélaginu Hornafirði. Reglurnar eru aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins www.hornafjordur.is og á skrifstofu sveitarfélagsins.

 

Umsækjendur geta nálgast frekari upplýsingar um leyfið á skrifstofu sveitarfélagsins, í síma 470-8024 eða sent fyrirspurn á netfangið bryndis@hornafjordur.is.

 

Áhugasamir aðilar vinsamlegast sendið umsókn til Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Hafnarbraut 27, 780 Hornafirði eða á netfangið bryndis@hornafjordur.is fyrir kl. 12:00, 26. maí 2014.

Reglurnar má finna hér á heimasíðu sveitarfélagsins

 

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar

Senda grein

 

Fréttasafn


TungumálÚtlit síðu: