Nokkrar staðtölur

Nokkrar staðtölur

Náttúra og saga

Austur-Skaftafellssýsla er skýrlega afmarkað landsvæði frá náttúrunnar hendi. Sýslumörkin liggja annars vegar við fallvötn vestan til á Skeiðarársandi, hins vegar við Eystrahornið, tígulegt fjall við austanvert Lón. Fjallasýn er afar tilkomumikil hvar sem er í sýslunni. Hvassa tinda ber við jökulinn, speglast í lónum og fjörðum og ljá þannig sveitarfélaginu nafnið sem svæðið gengur undir í daglegu tali - Hornafjörður.

Segja má að í sýslunni séu sex byggðarlög. Frá austri talið eru það "Lón" sem að sunnan afmarkast af Vestrahorni, "Nes" sem eru sveitin og þéttbýliskjarninn milli Vestrahorns og Hornafjarðarfljóts, "Höfn" sem er þéttbýliskjarninn á nesi milli Hornafjarðar og Skarðsfjarðar, ?Mýrar" sem eru sveitin milli Hornafjarðarfljóts og jökulárinnar Kolgrímu, "Suðursveit" sem er sveitin frá Kolgrímu vestur á Breiðamerkursand og hin fornfrægu "Öræfi" sem er sveitin við rætur Öræfajökuls.

Höfn í Hornafirði er ungt byggðarlag. Fyrstu íbúarnir, kaupmannshjónin Ottó og Valgerður Tulinius, settust að á Höfn árið 1897 og byggðu þar verslunar- og íbúðarhús sem enn standa. Byggðin óx hægt framan af og allt fram á miðja þessa öld var atvinnulíf heldur fábreytt á Höfn. Höfðu flest heimili lífsbjörg af smábúskap og veiðum úr firðinum. Eftir 1950 lifnaði heldur yfir athafnalífi á staðnum og síðan hefur Höfn vaxið óðfluga úr litlu sjávarþorpi í myndarlegan bæ með nútíma fyrirtækjum, verslunum, heilsugæslu og fjölbreyttri þjónustu.

Atvinnuvegir

Á Hornafirði eru starfrækt öflug sjávarútvegsfyrirtæki sem skapa undirstöðu þeirrar velmegunar sem almennt ríkir á staðnum. Nýtísku fiskiskip færa verðmætan afla að landi allan ársins hring og er Höfn meðal annars þekkt sem verstöð fyrir humarvertíð að vori og síldarvertíð að hausti. Fullkomin fiskiðjuver vinna aflann og selja innanlands og utan og hefur hróður hornfiskra sjávarafurða borist víða. Fiskiskipahöfnin iðar af lífi frá morgni til kvölds og gestir verða gagnteknir af þeirri stemmingu sem þar ríkir.

Í sveitarfélaginu Hornafirði er stundaður öflugur landbúnaður og eru aðal framleiðsluvörur bændanna mjólk og kindakjöt auk nauta- og svínakjöts. Afurðastöð þeirra, sláturhúsið, er fullkomið og hreinlegt og hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar.

Ferðaþjónusta

Á Hornafirði og í nágrenni hans er rekin öflug þjónusta við ferðamenn. Gisting býðst á hótelum, sveitabæjum og á vel búnum tjaldstæðum, matreiðslumenn bera fram rétti úr fersku og fjölbreyttu hráefni og nálægð stærsta jökuls Evrópu, Vatnajökuls, býður upp á óþrjótandi möguleika til útivistar og afþreyingar auk þess sem náttúrufar Austur-Skaftafellssýslu er að öðru leyti víðfrægt fyrir ótrúlega fjölbreytni. Meðal náttúruperla í héraðinu er þjóðgarðurinn í Skaftafelli, friðlýst svæði í Lónsöræfum og hið sérstæða Jökulsárlón.Ferðaþjónustuaðilar á svæðinu eru með sameiginlega skrifstofu í Nýheimum undir nafni Ríkivatnajökuls og eru með heimasíðu undir því nafni. http://www.visitvatnajokull.is/

 

Veðurfar

Veðurfarslega hefur Suðausturland talsverða sérstöðu m.v. aðra landshluta. Þar er hlýrra og langtum meiri úrkoma að meðaltali en víðast hvar í öðrum landshlutum enda í nágrenni við eitt mesta úrkomusvæði landsins sem myndað hefur Vatnajökul. Þrátt fyrir það er Hornafjörður líklega snjóléttasta svæði landsins að Vestmannaeyjum undanskildum og munar miklu á snjóalögum í Skaftafellssýslum og norðanverðum Austfjörðum. Fjöldi daga þar sem er alskýjað er svipaður á Hornafirði og Reykjavík en Hornfirðingar hafa vinninginn þegar heiðskýrir dagar á ári eru skoðaðir, 33 á móti 19 í Reykjavík. Ársmeðalhiti á Hornafirði er ívið hærri en í Reykjavík og Akureyri.


 

TungumálÚtlit síðu: