Atvinnu- og menningarmál

Samþykkt og gjaldskrá um götu‐ og torgsölu í Sveitarfélaginu Hornafirði

1. gr.

Tilgangur og almennar forsendur


Götu‐ og torgsala glæðir bæinn lífi og eykur við fjölbreytni í starfsemi og þjónustu á svæðinu.

Samþykkt þessi gildir fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð og er ætlað að stuðla að því að vel sé að þessum

málaflokki staðið, sölustarfsemi sé í sátt við nærumhverfi sitt og að upplýsingar séu aðgengilegar og

gagnsæjar.

 

Götu‐ og torgsala tekur til hvers kyns sölustarfsemi sem fer fram utanhúss og á almannafæri á

landi í eigu Sveitarfélagsins Hornafjarðar, s.s. á torgum, götum, gangstéttum, í almenningsgörðum og á hafnarsvæði. Götu‐og torgsala er leyfisskyld og eru leyfi gefin út í tilgreindan tíma af bæjarráði Sveitarfélagsins Hornafjarðar.  Minniháttar góðgerðasölur, s.s. tombólur barna og ungmenna, uppákomur um jól og áramót eru ekki leyfisskyldar skv. samþykkt þessari.

 

Ávallt ber þó að:

tryggja örugga og greiðfæra umferð vegfarenda

gæta hreinlætis og sjá til þess að umhverfi sölusvæðis sé snyrtilegt

afla tilskilinna leyfa vegna sölustarfsemi

sýna tillitssemi og vera í sátt við nánasta nágrenni fyrir uppákomur og sölustarfsemi.

 

Sölustarfsemi getur m.a. farið fram í:

sölubifreið þar sem afgreitt er út um söluop

söluvagni sem dreginn er af bifreið eða á annan hátt

tjaldi, sölubás

opnu rými undir berum himni, t.d. á borði, undir sólhlíf, á teppi eða sambærilegu.

 

Bæjarráð fer með umsjón götu‐ og torgsölu og sér um leyfisveitingar. Leyfisveiting byggist á mati á umsóknum þar sem gerð er grein fyrir sölustarfsemi, vöruframboði og útliti söluaðstöðu. Lögð er áhersla á fjölbreytileika á hverju sölusvæði. Meginreglan er að sölubifreiðar séu í bílastæðum en söluvagnar og önnur söluaðstaða á torgum, gangstéttum og í almenningsgörðum. Fjallað er um úthlutun leyfa í 3. grein í samþykkt þessari. Leyfishafi skal ávallt skila sölusvæði sínu hreinu og í sama ástandi og hann tók við því. Skemmdir á umhverfi sölusvæðis af völdum leyfishafa verða lagfærðar af Sveitarfélaginu Hornafirði á kostnað viðkomandi leyfishafa.

Á sölusvæði er hvorki gert ráð fyrir tengingum við fráveitu né vatnsveitu. Á einstaka sölusvæðum er

boðið upp á tengingu við rafveitu. Þar greiðir leyfishafi allan kostnað við tengingu og gjald fyrir rafmagnsnotkun.

 

2. gr.

Svæðaskipting götu- og torgsölu á Höfn

Skipulögð svæði eru fjögur talsins og er stuðst í meginatriðum við aðalskipulag Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Heimilt er að sækja um önnur sölusvæði en þau sem skilgreind eru í samþykkt þessari.

 

3. gr.

Umsóknarferli og málsmeðferð umsókna

 

Úthlutun byggir á tveimur meginþáttum:

1. Reglunni fyrstur kemur, fyrstur fær.

2. Kröfu um fjölbreytileika og mismunandi framboð á þjónustu.

 

Sótt er um leyfi í gegnum íbúagátt Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Umsóknarfyrirkomulag byggir á „fyrstur kemur, fyrstur fær“ reglunni. Í því felst að umsóknir verða samþykktar í þeirri röð sem þær berast fyrir hvert svæði sem sótt er um, þó með fyrirvara um fjölbreytni og eðli starfseminnar eins og greint er um í 1. gr. Leyfisveitandi skal auglýsa eigi síðar en 1. febrúar á heimasíðu Sveitarfélagsins Hornafjarðar hvenær opnað verður fyrir umsóknir um götu- og torgsöluleyfi. Eftir því sem umsóknir berast, frá og með fyrirfram auglýstum degi, eru þær auðkenndar með dagsetningu og tíma sem og móttaka þeirra er staðfest. Leyfisveitanda er heimilt að hafna umsóknum sem berast ef hann telur að sú starfsemi sem í umsókninni felst uppfylli ekki almennar kröfur til sölustarfsemi eða að starfsemin uppfylli ekki kröfur um fjölbreytileika og mismunandi framboð á þjónustu. Við mat á því tekur leyfisveitandi mið af umsóknum sem bárust fyrr í umsóknarferli og hafa verið samþykktar. Umsækjendur geta valið allt að tvö svæði til vara og ef umsókn berst fyrir sölusvæði sem þegar hefur verið úthlutað gildir umsóknin fyrir varasvæðin. Hafni leyfisveitandi umsókn þá fellur umsóknin út og næsta umsókn þar á eftir færist upp í hennar stað.

 

Umsækjandi um götu‐ og torgsöluleyfi getur nálgast upplýsingar um ferlið á heimasíðu Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

 

 • Í umsókn skal m.a. tilgreina ósk um staðsetningu og gildistíma, nákvæmar upplýsingar um söluvagn/bifreið; stærð, þyngd, söluop o.s.frv., sorpílát, orkugjafa og raforkuþörf (kW) sölustarfseminnar. Auk þess skulu fylgja myndir af söluaðstöðu og tilhögun á sölusvæðinu.
 • Um land og samgöngumannvirki bæjarins gildir sú meginregla að forsendur fyrir afnotum og ferðum hvers konar byggja á ákvæðum laga.
 • Leyfishafar skulu í tengslum við starfsemi sína kynna sér og fara eftir vegalögum nr. 80/2007, með sérstökum áherslum á allt er varðar umferðaröryggi og að umferð eigi greiða og góða leið um.
 • Forsendur fyrir notkun á vegum og landi sveitarfélagsins er að björgunaraðilar, s.s. lögregla, slökkvilið og sjúkraflutningar, hafi þar ávallt greiðan aðgang og viðunandi starfsskilyrði.

 • Ferðir og athafnir leyfishafa um og í námunda við úthlutað athafnasvæði eru á ábyrgð þeirra sem þar fara um, mannsöfnuður, með áherslum á barnahópa á götum úti, er bannaður.
 • Handhafi götu‐ og torgsöluleyfis skal uppfylla ákvæði laga nr. 28/1998 um verslunaratvinnu.

 • Umsækjandi sem selja vill matvæli skal sækja um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Austurlands samkvæmt lögum um matvæli nr. 93/1995 með síðari breytingum.

 • Umsækjandi sem selja vill merkingarskylda efnavöru s.s. snyrtivörur skal sækja um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Austurlands samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðari breytingum.

 • Umsækjandi skal sækja um stöðuleyfi hjá byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar samkvæmt byggingareglugerð.
 • Áður en samningur er undirritaður skal umsækjandi hafa aflað allra tilskilinna gagna og leyfa sem um starfsemi hans gilda. Leyfisveitanda er heimilt að fella leyfi úr gildi hafi leyfishafi ekki aflað áskilinna leyfa fyrir starfseminni.
 • Leyfisgjöld ákvarðast skv. gjaldskrá sem endurskoðast árlega.


4. gr.

Valkostir um götu- og torgsölu

Settir eru fyrirvarar um merkingar og vöruframboð og lögð áhersla á að söluvarningur sé viðbót við

það vöruframboð sem fyrir er hjá nærliggjandi verslunar- og þjónustuaðilum. Söluaðilum er gefinn kostur á því að kynna fyrir bæjarráði tillögur að öðrum sölusvæðum sem verða skoðaðar og eftir atvikum samþykktar til reynslu. Sölusvæði geta tekið breytingum á leyfistímanum. Söluaðilar geta sótt um söluaðstöðu frá bílastæðum eða öðrum hentugum stöðum í sveitarfélaginu. Gerð er krafa um að fyllsta öryggis vegfarenda verði tryggt á slíkum sölusvæðum.

 

MARKAÐSSALA – stærri viðburðir

Hægt er að sækja sérstaklega um afnot af landi, utan skilgreindra sölusvæða götu- og torgsölu fyrir stærri markaði í margvíslegum tilgangi. Skilgreina þarf í umsókn óskir um landsvæði, stærð þess og staðsetningu, tímalengd afnota, fjölda söluaðila, vöruframboð, útlit og umgjörð sölustarfsseminnar.

 

DAGSALA

Hægt er að sækja um söluleyfi fyrir söluvagna og sölubifreiðar á skilgreindum dagsölusvæðum. Sala

er heimiluð frá kl. 06.00-22.00.

NÆTURSALA

Sækja þarf sérstaklega um nætursölu þar sem fram kemur staðsetning vagns. Sala er heimiluð frá kl. 22.00-06:00. Almennt skal miða sölustarfsemi við lokun vínveitingahúsa og tekur framangreind tímasetning mið af því sbr. lög og reglur sem um starfsemina gilda á hverjum tíma.

SÖLUSVÆÐI

Eftirfarandi svæði eru skilgreind fyrir söluvagna. Hér er t.d. átt við vagna sem dregnir eru af bifreið eða á annan hátt að og frá sölusvæði. Óheimilt er að staðsetja bifreið á sölusvæði nema rétt á meðan tenging og aftenging á sér stað.

 

Svæði 1, (við Akurey) 2 stæði

Svæði 2, (á plani til móts við Gömlubúð) 3 stæði

Svæði 3, (við Sundlaug Hafnar) 3 stæði

Svæði 4, (miðsvæði við Miðbæ) 3 stæði

 

 


 

5. gr.

Skyldur leyfishafa – umgengni

Eftirfarandi kröfur eru gerðar til leyfishafa:

 • Útlit söluaðstöðu fari vel í umhverfinu og að efnisnotkun, ásýnd og yfirbragð sé vandað og við hæfi þar sem salan á að eiga sér stað.
 • Umhverfi sölusvæðis skal haldið hreinu, þ.m.t. hvað varðar rusl og annan óþrifnað sem á uppruna sinn á útiveitingasvæðinu og borist hefur í næsta nágrenni. Fjarlægja skal  sorp og allan aðfluttan búnað af sölusvæði eftir lokun.
 • Annast snjómokstur og hálkuvarnir í nánasta umhverfi sínu þannig að öryggi vegfarenda verði á hverjum tíma tryggt.
 • Framvísa leyfisskírteini að beiðni leyfisveitanda eða eftirlitsaðila í umboði leyfisveitanda.
 • Verði misbrestur á ofangreindu getur sveitarfélagið látið fjarlægja söluaðstöðu, látið hreinsa sölusvæðið á kostnað leyfishafa og fellt leyfi úr gildi.

 

6. gr.

Útlit og merkingar

 • Óheimilt er að setja upp hvers kyns auglýsingaskilti og merkingar varðandi söluaðstöðu utan við skilgreint sölusvæði. Skilti innan skilgreinds sölusvæðis má aðeins auðkenna viðkomandi sölustarfsemi.
 • Öll viðföng, ruslafötur, skilti, merkingar og hvað annað sem tilheyrir starfseminni skal staðsetja á fyrirfram skilgreindum stöðum samkvæmt teikningu (fylgiskjal með samningi) og innan þess svæðis sem leyfið kveður á um.
 • Óheimilt er að hengja varning, skilti eða aðrar merkingar, borða og bönd í nærliggjandi tré, húsveggi, skilti, staura o.s.frv. Útstillingahlutir, skilti o.fl., mega ekki byrgja sýn á opinber skilti eða búnað til umferðarstjórnunar eða hindra umferð vegfarenda.

 

7. gr.

Uppsögn, lok og afturköllun söluleyfis

Eftirfarandi ákvæði gilda um uppsögn, lok og afturköllun söluleyfis:

 • Leyfi getur hvenær sem er verið fellt úr gildi hafi leyfishafi brotið ákvæði þessarar samþykktar.
 • Leyfi getur hvenær sem er verið afturkallað ef áform eru um að svæðið verði notað í opinberum tilgangi, skal þá endurgreiða leyfishafa eftirstöðvar leyfisgjalds.
 • Leyfi getur verið afturkallað ef samfellt rof myndast á sölustarfsemi í meira en tvær vikur.
 • Leyfishafa er gert skylt að laga sig að vega‐ og byggingaframkvæmdum og viðburðum á götu‐ og torgsölusvæðum sem geta leitt til tímabundins flutnings og/eða afturköllunar leyfis.
 • Leyfishafa skal tilkynnt um slíkar ráðstafanir með fyrirvara. Ekki eru greiddar bætur fyrir tímabundna afturköllun á götu‐ og torgsöluleyfi vegna veghalds eða annarra verkefna veghaldara og landeigenda, t.d. þar sem lagnir eða leiðslur hafa brostið.
 • Við uppsögn leyfis hvílir sú kvöð á leyfishafa að fjarlægja strax söluaðstöðu, þ.m.t. alla fylgihluti og innréttingar af sölusvæði. Ef verkið er ekki unnið innan tilgreinds tímafrest áskilur sveitarfélagið sér rétt til að framkvæma þá vinnu á kostnað viðkomandi leyfishafa.
 • Leyfisveitanda er heimilt að framlengja leyfi að ósk leyfishafa í allt að 3 ár frá útgáfudegi upprunalegs leyfis. Leyfishafa ber að sækja um framlengingu fyrir 15. janúar ár hvert, að öðrum kosti fellur leyfi úr gildi án sérstakrar uppsagnar.
 • Leyfisgjald fæst ekki endurgreitt eftir að leyfi hefur verið gefið út, nema í þeim tilfellum sem fjallað er um í 2. mgr. þessarar greinar.

 

8. gr.

Almenn ákvæði og skilmálar

Götu‐ og torgsöluleyfi er ekki hægt að framselja eða framleigja.

 • Leyfishafi skal greiða leyfisgjald eins og það er ákveðið í gjaldskrá á hverjum tíma.
 • Götu‐ og torgsala má ekki skerða öryggi og aðgengi gangandi, hjólandi og akandi umferðar eða byrgja glugga rekstraraðila á sölusvæðinu. Gerð er sú krafa að frí gangstéttarbreidd sé minnst 1,5 m.
 • Leyfishafa er óheimilt að stunda götu‐ og torgsölu annars staðar en leyfið kveður á um.
 • Tryggja skal að ekki hljótist mengun af starfseminni.
 • Samningur um söluleyfi fyrir götu- og torgsölu tekur ekki til sölu á bæjarhátíðum, s.s. sjómannadag, 17. júní og Humarhátíð.
 • Leyfishafi skal hafa götu- og torgsöluleyfi (leyfisskírteini) tiltækt til þess að sanna handhöfn leyfis fyrir leyfisveitanda eða eftirlitsaðila í umboði leyfisveitanda.
 • Leyfishafa er skylt að sjá til þess að umhverfi sölusvæðis sé ávallt haldið hreinu og skulu engin ummerki vera um starfsemina utan þess tíma sem skilgreindur er í leyfissamningi. Verði á því misbrestur getur sveitarfélagið látið fjarlægja söluvagn og annað það er tilheyrir sölustarfseminni og látið þrífa svæðið á kostnað leyfishafa.
 • Ákvörðun um að veita götu‐ og torgsöluleyfi er háð kvöð um að útlit söluaðstöðu fari vel í umhverfinu og að efnisnotkun, ásýnd og yfirbragð sé vandað og við hæfi þar sem salan á að eiga sér stað.

 

9. gr.

Aðrar reglur og yfirvöld

Hátíðarnefndir geta sett sérstakar reglur um fyrirkomulag sölustarfsemi á bæjarhátíðum hverju sinni.

Götu‐ og torgsala skal hlíta gildandi lögum, reglum og viðmiðum sem ná yfir starfsemina og umgjörð hennar, m.a. um leyfilegan opnunartíma. Í þeim tilvikum sem starfsemin krefst frekari leyfa en götu‐ og torgsöluleyfis skal leyfisumsækjandi afla þeirra.

 

10. gr.

Bráðabirgðaákvæði

Fullnægjandi umsókn sem borist hefur fyrir gildistöku samþykktar þessarar skal lúta afgreiðslu bæjarráðs.

 

11. gr.

Gildistaka

 

 Reglunar öðlast þegar gildi.

Samþykkt í bæjarráði 29. febrúar 2016

Samþykkt í bæjarstjórn 10. mars 2016

 

Gjaldskrá febrúar 2016 – götu- og torgsöluleyfi

 

                    Staðsetning              Fjöldi stæða                  Leigugjald kr.                      Tímabil

Akurey/smábátabryggja 2

Kr. 105.000.- mv. allt að 15 m² vagn.

Verð utan stöðuleyfis

Allt árið
Svæði á móts við Gömlubúð 3

Kr. 105.000.- mv. allt að 15 m² vagn.

Verð utan stöðuleyfis

Allt árið
Við Sundlaug Hafnar 3

Kr. 105.000.- mv. allt að 15 m² vagn.

Verð utan stöðuleyfis

Allt árið
Miðsvæði við Miðbæ 3

Kr. 105.000.- mv. allt að 15 m²  vagn.

Verð utan stöðuleyfis

Allt árið

 

Ath. verðskrá tekur breytingum samkvæmt þróun á fastaeignagjöldum Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

 

 

Stöðuleyfi

Þessu til viðbótar er innheimt gjald fyrir stöðuleyfi samkvæmt gjaldskrá byggingarfulltrúa.


Samþykkt í bæjarstjórn 10. mars 2016


 

TungumálÚtlit síðu: