Umhverfisfréttir

Gerum nýja umhverfisstefnu að lífsstíl  

10.4.2014 Umhverfisfréttir

 Kröfur um ábyrga umhverfisstjórnun sveitarfélaga hafa aukist á síðustu árum. Ýmsar leiðir eru færar að því markmiði til að standa undir þeim kröfum. Sveitarfélagið Hornafjörður hefur nú sett stefnuna á metnaðarfulla vinnu í umhverfismálum og vonandi munu íbúar og fyrirtæki taka virkan þátt í því verkefni.

Fyrir sveitarfélag sem okkar verður að teljast afar mikilvægt að vinna vel og af metnaði að umhverfismálum. Eins og kemur fram í nýrri umhverfisstefnu sveitarfélagsins er mikilvægt að standa vörð um einstaka náttúru svæðisins án þess að koma í veg fyrir möguleika til skynsamlegrar nýtingar og upplifunar.

Umhverfi okkar og náttúra leikur stórt hlutverk í lífi okkar flestra. Við njótum þess að stunda útivist, ganga um fjöru, fjöll og móa og sjá um leið fjölskrúðugt dýralíf. Mörg njótum við þess að draga fisk úr ám og vötnum, aðrir njóta þess að liggja í túnum og bíða morgunflugsins svo fátt eitt sé nefnt. Landbúnaður og sjávarútvegur eru mikilvægar stoðir samfélagsins og eins og gefur að skilja byggja atvinnugreinarnar á beinni nýtingu náttúruauðlinda. Allt á þetta að geta farið saman og vera mögulegt, bæði nú og næstu áratugina en aðeins getur svo orðið ef við gerum þetta allt af skynsemi og umgöngumst náttúru og lífríki landsins af virðingu um leið og við berum virðingu fyrir þörfum samfélagsins í heild. Séum við skynsöm verður ekki þörf á boðum og bönnum sem svo gjarnan eru lausnin.

Síðustu ár hefur hér vaxið atvinnuvegur sem hefur einnig mikla þýðingu fyrir samfélagið en ferðaþjónustan byggir afkomu sína að miklu leiti á hinni stórbrotnu og ósnortnu náttúru svæðisins. Verndun umhverfis og náttúru hlýtur því að teljast hagur allra íbúa, stofnana og fyrirtækja á svæðinu og grundvöllur allra aðila til samstarfs í umhverfismálum.

Umhverfisstefna Sveitarfélagsins Hornafjarðar var samþykkt á 195. fundi bæjarstjórnar sem haldinn var 12. september 2013. Það sjónarmið sem haft var sérstaklega í huga við gerð stefnunnar var mikilvægi þess að móta stefnu sem eining væri um innan sveitarfélagsins. Samstaða er mikilvægust af öllu ef vel á að takast til, stefna sem felur í sér markmið sem íbúar, fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu geta sameinast um ætti að vera líklegust til að tryggja árangur. Umhverfisstefna sveitarfélagsins felur ekki í sér markvissa vinnu að umhverfisvottun sveitarfélagsins heldur er henni fyrst og fremst ætlað að stuðla að jákvæðri þróun og markvissri vinnu að umhverfismálum í sveitarfélagi okkar þar sem eins og áður sagði skal bæði borin virðing fyrir samfélagi manna og dýra sem og náttúrunni í heild.

Ekki verður hér tiltekið allt það sem stefnan felur í sér en má þó nefna áhersluþætti sem snúa meðal annars að fráveitu, efnistöku, líffræðilegum fjölbreytileika, náttúruvernd, þolmörkum ferðamannastaða, vistvænu og heilnæmu umhverfi, umhverfisvænum ferðamáta og umhverfisfræðslu til íbúa og ferðamanna svo eitthvað sé nefnt.

Framkvæmdaáætlun í umhverfismálum hefur einnig verið samþykkt en byggir hún á stefnunni og er henni ætlað að tryggja markvissa innleiðingu umhverfisstefnunnar í áföngum á árunum 2014-2020.

Góð byrjun er að tileinka sér einfalda hluti sem við getum öll gert.

1.      Flokkum og endurnýtum úrgang.

2.      Slökkvum á ljósum og rafmagnstækjum sem ekki eru í notkun.

3.      Nýtum okkur umhverfisvænan ferðamáta, hjólum og göngum þegar við getum.

4.      Veljum vörur framleiddar í heimabyggð.

5.      Veljum umhverfisvottaðar vörur.

6.      Fleygjum ekki rusli á almannafæri. 

Með von um gott samstarf okkar allra.

Hugrún Harpa Reynisdóttir
Varaformaður Umhverfis- og skipulagsnefndar

Senda grein

 

TungumálÚtlit síðu: