Umhverfisstefna

Umhverfisstefna Sveitarfélagsins Hornafjarðar

Garðyrkja

 

1. Inngangur

Umhverfisstefna Hornafjarðar mun taka til  þátta náttúru og umhverfis. Haft skal að leiðarljósi að samspil manns og náttúru sé í forgrunni og náttúran fái að njóta vafans án þess að komið sé í veg fyrir möguleika til skynsamlegrar nýtingar og upplifunar.  Umhverfi og náttúra sveitarfélagsins er fyrir íbúa til að njóta allan ársins hring og er því verndun umhverfis og náttúru hagur allra íbúa, stofnana og fyrirtækja svæðisins sem ætti að vera grundvöllur allra aðila til samstarfs í umhverfismálum. Ferðamönnum og öðrum gestum sem koma til að njóta náttúru og umhverfis á svæðinu fer fjölgandi og er mikilvægt að þeir eins og íbúar taki þátt í að stuðla að jákvæðri þróun umhverfismála á svæðinu.

Sveitarfélagið mun vera leiðandi í umhverfistefnu þar sem sjálfbærni náttúru og umhverfis skal höfð að leiðarljósi. Eitt af markmiðum  hennar er að umhverfi íbúa verði aðlaðandi, vistvænt  og heilnæmt . Stefnt er að því að Sveitafélagið Hornafjörður verði í fremstu röð sveitarfélaga við verndun umhverfis og náttúru, það verði eftirsótt til búsetu sem vistvænt sveitarfélag með heilnæmu og aðlaðandi umhverfi og um leið ákjósanlegur staður fyrir ferðamenn til að heimsækja og njóta hreinnar og óspilltrar náttúru.

Hornafjörður er eitt af landmestu sveitarfélögum landsins þar sem íbúar búa dreift á um 200 km. landsvæði sem nær frá Hvalnesskriðum í austri að Skeiðarársandi í vestri. Íbúar eru flestir á Höfn en einnig búa margir í hinum dreifðari byggðum Hornafjarðar.

Náttúra svæðisins og náttúruleg fjölbreytni lífríkis er hér einstök. Hluti stærsta þjóðgarðs landsins er innan landsvæðis Hornafjarðar með stærsta jökul Evrópu innan sín. Einnig eru strandlengjur, sandar,  ár og vötn stór þáttur í umhverfi Hornafjarðar.

Hornafjörður er vaxandi  sveitarfélag þar sem ríkir virðing  gagnvart náttúru og umhverfi. 

2. Náttúran og landsins gæði 

Stefna Hornafjarðar er að stuðla  að sjálfbærri þróun náttúru og umhverfis svo unnt verði að tryggja komandi kynslóðum aðgang að þeim  lífsgæðum og náttúru og við búum við í dag. Standa skal vörð um líffræðilegan fjölbreytileika náttúru og lífríkis.   

Áhugaljósmyndasýning 2012

2.1 Uppgræðsla og verndun landsvæða

Umhverfi og náttúra svæðisins er fyrir margt einstök og er mikilvægt að vernda þá sérstöðu eins og unnt er.

Leita skal leiða til að koma í veg fyrir að verulegt rask verði á náttúru og umhverfi við framkvæmdir og lögð áhersla á að farið sé eftir verklagsreglum við framkvæmdir og frágang svæða. Þar sem mikið rask verður skal það lagfært eins og kostur er.

Innan sveitarfélagsins eru miklir sandar og ber svæði sem verða að teljast eitt af sérkennum svæðisins. Í samstarfi við Landgræðsluna verður áfram unnið að uppgræðslu sanda og örfoka svæða og verndun skóga innan sveitarfélagsins. Ávallt skal haft í huga að sérstaða svæðisins haldi sér og slíkar framkvæmdir skulu hafa eins náttúrulegt yfirbragð og mögulegt er. Skilgreina skal svæði fyrir uppgræðslu skóga þar sem áhrif skógræktar á botngróður geta verið mikil. Þannig getur skógrækt hindrað vöxt annarra jurta og plantna.

Auknar kröfur skulu gerðar um að efnistaka fari ekki fram nema náma séu samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins. Hvatt er til skynsamlegrar nýtingar á námum og námur skulu ekki ganga gegn verndun og sjálfbærri þróun lands. Mikilvægt er að efnistaka í ám og vötnum hafi sem minnst áhrif á lífríki þeirra

Mikilvægt er að öll landnýting geti verið skynsamleg af manna hálfu án þess að frekari boð og bönn þurfi að koma til. Sveitarfélagið Hornafjörður mun eftir fremsta megni stuðla að skynsamlegri nýtingu náttúru og umhverfis.  

 Duglegir_drengir_RKI

2.2 Náttúruvernd og líffræðilegur fjölbreytileiki

Hér er átt við verndun landslagsgerða, lífríkis,  náttúruminja og líffræðilegrar fjölbreytni svæðisins.
Mikilvægt er að leitað sé  leiða til að draga úr hættu á að líf, land, sjór, vatn eða andrúmsloft spillist eða mengist. Lögð skal áhersla á að vernda það sem er sérstætt eða sögulegt og stuðlað skal að því að náttúra svæðisins fái að þróast eftir eigin lögmálum og ónauðsynleg afskipti manna af þróun hennar skal haldið í lágmarki. Um leið skal þó leitast við að auðvelda umgengni og kynni íbúa og gesta að náttúru svæðisins og menningarminjum.

Með líffræðilegri fjölbreytni er átt við fjölbreytni innan tegunda, milli tegunda og milli vistkerfa.
Fuglalíf er auðugt í sveitarfélaginu og hefur svæðið skapað sér sess sem vinsæll staður til fuglaskoðunar. Mikilvægt er  að viðhalda þeim fjölbreytileika með verndun búsvæða. Mikilvæg búsvæði eru til dæmis strandlengjur, votlendi, mólendi og búsvæði fugla meðfram vatnsbökkum.  Vernd og endurheimt votlendis skiptir miklu máli.  Halda skal refastofni í skefjum en útrýma skal mink. Vernda skal afmörkuð varpsvæði fugla á varptíma fyrir framkvæmdum, einnig skal því fylgt eftir að bönn við eggjatínslu á ákveðnum varpsvæðum séu virt. Unnið skal að skráningu og upplýsingaöflun mikilvægra fuglasvæða í sveitarfélaginu í samstarfi við félag fuglaáhugaman Bannað er að stunda veiði villtra dýra og fugla utan veiðitíma né veiði á friðuðum tegundum. Enn fremur er hvatt til hóflegrar veiði þeirra tegunda sem veiðileyfi er á og þannig skal reynt að stuðla að sjálfbærri nýtingu villtra dýrastofna.

 Ár og vötn eru áberandi í náttúru svæðisins, eftirlit skal aukið með framkvæmdum í eða við vötn og árfarvegi sem geta haft neikvæð áhrif á lífríki þeirra.  Með auknu eftirliti má verja búsvæði fiska og koma í veg fyrir skaða á lífríki í ám og vötnum.  

Strendur eru mikilvægar fyrir marga fuglastofna þar sem mikill fjöldi fugla sækir fæðu sína í fjöru og á grunnsævi. Strendur eru einnig mikilvægar fyrir land- og sjávarspendýr og er  mikilvægt lífríki að finna í fjöru og á grunnsævi.  Lífríki fjörunnar er viðkvæmt fyrir hvers konar mengun á öllum árstímum þar sem fjaran er virk allan ársins hring. Leitað skal leiða til að draga úr mengun strandlengjunnar í sveitarfélaginu. Af allri þeirri mengun sem berst til sjávar eru um 80% upprunnin frá starfsemi í landi. Mengunarefni berast til sjávar frá landi sem loftborin mengun og með frárennsli frá almennum fráveitum, fyrirtækjum eða öðru afrennsli af landi. Til að draga megi úr mengun hafsins er  mikilvægt að beina athyglinni að starfsemi í landi.

Landið og viðkvæm náttúra þess og lífríki er víða viðkvæmt fyrir ágangi. Leitast skal við að vernda land og viðkvæma náttúru fyrir hvers konar ágangi sem telst skaðlegur eða óásættanlegur. Unnið skal að uppbyggingu á þeim svæðum sem þurfa að þola mikinn ágang. Slík uppbygging má þó ekki vera með þeim hætti að óásættanlegar breytingar verði á hinu náttúrulega umhverfi svæða. Bætt aðstaða og aðgengi má ekki bitna á náttúru eða lífríki.  

 

Utanvegaakstur er ógn við viðkvæma náttúru, gróður og lífríki og getur valdið skemmdum  sem eru ár eða jafnvel áratugi að ganga til baka.  Það á jafnt við um svæði þar sem gróðurþekja hylur landið sem og  um sanda og ógróin svæði.  Hjólför raska ásýnd landsins auk þess sem þau verða að farvegi fyrir vatn og stuðla þannig að jarðvegs- og gróðurrofi. Hjólför utan vega hafa einnig aðdráttarafl fyrir aðra vegfarendur og hvetja til frekari utanvegaaksturs.

Leita skal leiða til að koma í veg fyrir utanvegaakstur, auknu eftirliti og sértækum aðgerðum eins og árstíðarbundnum takmörkunum á umferð skal beitt ef þurfa þykir.

Friðun er ein þeirra aðferða sem beitt er við náttúruvernd. Tilgangur friðunar er margs konar, svo sem verndun búsvæða plantna og dýra, jarðmyndana og landslags. Með friðun er reynt að tryggja rétt okkar og komandi kynslóða til að njóta lítt snortinnar náttúru og þar með stuðla að sjálfbærri þróun hennar. Sveitarfélagið getur að eigin frumkvæði gert tillögu til Umhverfisstofnunar að friðlýsingu svæðis. Nokkur friðlönd eru í Sveitarfélaginu Hornafirði. Standa skal vörð um friðlönd svæðisins og ekki skal farið í ónauðsynlegar framkvæmdir innan þeirra. Friðlönd í Sveitarfélaginu Hornafirði eru:

 

 

Ósland

Ósland - Friðlýst sem fólkvangur árið 1982 og var friðlýsingin endurskoðuð árið 2011. Markmiðið með friðlýsingunni er að tryggja svæði til útivistar og útikennslu í náttúrufræðum í sveitarfélaginu Hornafirði. Einnig er markmiðið að tryggja verndun sérstakra jarðmyndanna og fjölbreytts fuglalífs (http://www.ust.is/einstaklingar/nattura/fridlyst-svaedi/austurland/).

Díma

Díma í Lóni var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Díma er er klapparhæð á aurum Jökulsár í Lóni, með fjölbreyttum gróðri. Klettaborgin Díma er landamerki milli jarðanna Stafafells og Þórisdals. Díma hefur augljóslega lengi verið eyja í Jökulsá og ber merki þess að vera sorfin af ánni. Lóðrétt standberg er norðanmegin, þar sem áin rennur í dag. Vestur-, suður- og austurhlíðar klettaborgarinnar eru einnig snarbrattar en einungis er greiðfær leið upp að suðvestanverðu, frá varnargarðinum sem tengir Dímu við Dalsfjall  (http://www.ust.is/einstaklingar/nattura/fridlyst-svaedi/austurland/)..

Háalda

Háalda var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Svæðið er jökulalda mikil milli Sandfells og Hofs. Hlaupset sem varð til í jökulhlaupi við gos 1727 í Öræfajökli. Þetta fyrirbæri er dæmigert dauðíslandslag. Jökulkerið í öldunni er far eftir ísjaka.
Stærð náttúruvættisins er 4,9 ha. (
http://www.ust.is/einstaklingar/nattura/fridlyst-svaedi/austurland/).

Ingólfshöfði

3. október 1978 var ákveðið að friðlýsa Ingólfshöfða og er svæðið friðland.  Mörk friðlandsins mynda ferhyrning um línur sem hugsast dregnar í 100 metra fjarlægð út frá ystu klettasnösum höfðans.

Þessar reglur gilda um friðlandið.

Hefðbundnar nytjar bænda á Hofi og Svínafelli III í Hofshreppi fá að haldast á svæðinu með samkomulagi við [Umhverfisstofnun]. Sama gildir um hefðbundnar nytjar Hofsness af fjöru vestan höfðans og ósi sem falla kann um svæðið. Að öðru leyti má hvorki skerða gróður, skaða eða trufla dýralíf né gera jarðrask.

Mannvirkjum, sem nú eru á höfðanum, skal viðhaldið í samráði við [Umhverfisstofnun].

Gangandi og ríðandi fólki er heimil för um svæðið í lögmætum tilgangi en hyggist ferðafólk dvelja þar um lengri tíma þarf leyfi umsjónaraðila.

Akstur er bannaður í höfðanum án sérstaks leyfis umsjónaraðila, svo og meðferð skotvopna.

Lónsöræfi  

Friðlandið í Stafafellsfjöllum er oft kallað einu nafni Lónsöræfi. Þar er mikil fjölbreytni í formum og litum og mikið um líparít, holufyllingar og fagra steina. Víða eru grónir balar og ekki ólíklegt að menn rekist á hreindýr á ferð sinni um fjöllin.

Innfjöll með Eskifelli, Kjarrdalsheiði, Kollumúla og Víðidal voru friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum í ársbyrjun 1977 að fengnu samþykki landeigenda. Frumkvæði að friðlýsingu höfðu Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST). Er svæðið friðland og ýmist kennt við Lónsöræfi eða Stafafellsfjöll.  Stærð friðlandsins er 34.528. (http://www.ust.is/einstaklingar/nattura/fridlyst-svaedi/austurland/).

Er nú net gönguleiða um svæðið, göngubrýr og skálar á Lónsöræfum.Landvörður hefur aðsetur í Lónsöræfum við Múlaskála (GPS-hnit N64° 33.200' - W015° 09.077').

Salthöfði og Salthöfðamýrar voru friðlýstar árið 1977. Höfðinn er berggangur eða gígtappi sem til forna hefur verið sjávarhamrar.  Stærð friðlandsins er 230,7 ha. (http://www.ust.is/einstaklingar/nattura/fridlyst-svaedi/austurland/). 

Skaftafell mynd 7

Skaftafell

Þjóðgarður í Skaftafelli var formlega stofnaður 23. ágúst 1968.

Í júní 2008 varð þjóðgarðurinn í Skaftafelli hluti af nýstofnuðum Vatnajökulsþjóðgarði. Skaftafellsland er mótað af rofi jökla og vatns, skriðjöklar setja svip sinn á landið og Skeiðará, Morsá og Skaftafellsá renna frá samnefndum jöklum. Skeiðará er þeirra mest og var mikill farartálmi þar til hún var brúuð árið 1974. Kunnust er hún vegna Skeiðarárhlaupa sem eiga upptök sín í Grímsvötnum, ýmist vegna eldvirkni eða jarðhita.

 Gróðurfar er fjölbreytt í Skaftafelli, neðanverðar hlíðar eru vaxnar birkiskógi, sums staðar vex reyniviður innan um og er botngróður  gróskumikill. Í Bæjarstaðarskógi verður birki hávaxnara en víðast hvar á landinu. Bláklukka, gullsteinbrjótur og klettafrú, sem eru meðal einkennistegunda Austurlands, finnast víða í Skaftafelli. Gróðurfar hefur tekið miklum breytingum eftir að þjóðgarðurinn var friðaður, bæði að magni og umfangi.

Jökulaurarnir eru nú óðum að gróa upp, bæði framan við Skaftafellsjökul og í Morsárdal Tegundir eins og geithvönn, ætihvönn, baunagras og eyrarrós, sem varla sjást á beittu landi, eru orðnar algengar. Birki og víðir teygja sig upp úr aurunum og skógur og kjarr hefur aukist í hlíðum. Skordýralíf í Skaftafelli er mjög fjölbreytilegt samanborið við aðra staði á landinu og um miðbik sumars verður fiðrildið hvítfeti áberandi.

Helstu náttúruperlur Skaftafells eru:

Bæjarstaðarskógur sem er hávaxnasti birkiskógur landsins en lítill um sig. Kjós sem er litskrúðugur fjallasalur með um 1000 metra háum skriðu- og hamraveggjum. Kristínartindar sem eru tveir tindar, 979 m og 1126 m háir, sem gnæfa yfir Skaftafellsheiðina.
Morsárjökull sem fellur fram af þverhníptum hömrum. Skaftafellsjökull sem er skriðjökull sem gengur niður úr Vatnajökli austan Skaftafellsheiðar. Svartifoss sem fellur fram af hömrum með óvenju reglulegum bergstuðlum er myndast hafa við hægfara kólnun hraunlags.

3. Umhverfi og samfélag

Úrbætur í umhverfismálum eru samfélagslegt verkefni. Mikilvægt að efla menntun á sviði umhverfismála á öllum skólastigum jafnframt íbúa og  gesta.

Árlega verða veittar umhverfisviðurkenningar fyrir góðan árangur í umhverfismálum.

3.1 Umhverfisfræðsla
Það er stefna Sveitarfélagsins   að tryggja að allir bæjarbúar geti notið fræðslu um umhverfismál með fjölbreyttum hætti. Fræðsla í umhverfismálum samtímans er nauðsynleg og mikilvægt að bæði börn og fullorðnir fái fræðslu um markmið og tilgang umhverfisstarfs,  þar sem mörg brýnustu verkefni umhverfismála snúa að einstaklingunum sjálfum.  Því er mikilvægt að fræða fólk og þannig stuðla að umhverfisvænni lífstíl einstaklinga. Enn fremur skal stefnt að því að fræðsla og upplýsingamiðlun um gildi sjálfbærrar neyslu í daglegu lífi verði aukin.

Mikilvægur liður í fræðslu til einstaklinga er að fræða bæði íbúa og gesti svæðisins um markmið umhverfisstefnu sveitarfélagsins.

3.2 Menningaminjar

Mikilvægt er að sýnileiki menningarminjanna verði meiri en áður. Framtíðaráform  um skráningu menningarminja og náttúruverðmæta verða ákvörðuð markvisst með það að leiðarljósi að skráningu í sveitarfélaginu verði lokið í byrjun árs 2017.

Miðlun menningararfsins til yngri kynslóða í formi vettvangsferða og fyrirlestra er mikilvægur þáttur í enn frekari uppbyggingu og menntun um margbrotna sögu sveitafélagsins. Menningarminjar skulu merktar með fræðsluskiltum og þannig gerðar aðgengilegri almenningi. 

3.3 Umhverfi og lýðheilsa

Órjúfanleg tengsl eru milli umhverfis og lýðheilsu þar sem heilbrigt umhverfi bætir gjarnan heilsu fólks og eykur vellíðan. Það er stefna Sveitarfélagsins Hornafjarðar að skapa aðstæður sem bæta heilsu og auka vellíðan íbúa. Þannig skal unnið að ýmsum úrbótum og verkefnum sem auka möguleika íbúa og gesta sveitarfélagsins til að stunda aukna útivist i heilbrigðu umhverfi. Gott aðgengi fyrir alla að útivistarsvæðum og uppbygging hjólreiðastíga, göngustíga og reiðleiða eru mikilvæg skref í átt að því markmiði.

Sveitarfélagið skal vera leiðandi í vinnu forvarnarstarfs sem stuðlar að bættu umhverfi og heilsu íbúa. Mikilvægt er að stutt sé við það fjölbreytta frístundastarf sem er í boði í sveitarfélaginu og íbúar hvattir til þátttöku. Með ýmsum verkefnum skal stuðlað að og stutt við þátttöku allra aldurshópa í íþróttum og útivist með þarfir hvers hóps fyrir sig í huga.

Stefnt skal að því að skólar og stofnanir bæjarins setji sér umhverfisstefnu og þar sem mögulegt er verði tekið upp grænt bókhald.   

Stefnt skal að mælingu á hljóðvist í íbúahverfum og vinnustöðum sveitarfélagsins.

4. Heilnæmt og öruggt umhverfi

Mikilvægt er að íbúar Hornafjarðar fái hreint og ómengað neysluvatn. Fráveita Hornafjarðar uppfylli lagalegar skyldur og mengun frá henni verði lágmörkuð samkvæmt reglugerð. Hvetja skal íbúa og fyrirtæki til að flokka sorp og lágmarka urðun sorps. Mikilvægt er að hvetja íbúa til að hafa umhverfi sitt snyrtilegt með sérstökum hreinsunardögum. Halda skal loftgæðum sveitarfélagsins góðum áfram.

4.1 Vatnsgæði

Standa skal vörð um gæði yfirborðsvatns svo sem í ám og stöðuvötnum og eftir fremsta megni skal reynt  að tryggja  að yfirborðsvatn mengist ekki. Framkvæma skal sýnatöku þegar þörf þykir eða ef upp kemur grunur um mengun yfirborðsvatns. Ef upp kemur tilfelli mengunar í yfirborðsvatni skal gera viðeigandi ráðstafanir til að unnt verði að koma í veg fyrir frekari mengun.

Hreinsivirki sigvatns frá urðunarstað Sorpstöðvar Hafnar á Mel í landi Fjarðar hefur verið í ólagi og hætta er á efnamengun grunnvatns og lækjarins sem er í grennd urðunarstaðarins (Umhverfisstofnun, 2012). Unnið skal að úrbótum svo draga megi úr hættu á efnamengun vatns á svæðinu.

Unnið skal að viðhaldi vatnsveitu og fylgst með gæðum neysluvatns. Fyrirtæki og íbúar eru hvött til að fara sparlega með neysluvatn. 

Tryggja skal að staðið sé að málum vatnsverndarsvæða eins og kveðið er á um í vatnalögum nr. 36/2011.

Aerial photo of Osinn

4.1.1. Fráveita

Fráveitumál skulu höfð í forgangi og unnið skal samkvæmt fráveitusamþykkt sveitarfélagsins. Leitast skal við að fráveita Hornafjarðar uppfylli öll lög sem í gildi eru hverju sinni. Vinna skal að viðhaldi fráveitu og innra eftirliti hennar og fylgst skal náið með mengun og unnið að því að lágmarka hana. Stefnt er að því að hvergi fari óhreinsað skólp út í viðtaka. Megin markmið vatnalaga nr. 36/2011 er að ástand alls vatns verði gott eða mjög gott. Til þess að það markmið náist má mengun ekki vera meiri en svo að vatnið flokkist í 1. eða 2. flokk samkvæmt reglugerð nr. 796/1999 um mengun vatns. Unnið skal að þeim úrbótum sem er þörf á til að mengun af fráveitu sé innan þessara marka.

Nauðsynlegt er að ráðast í úrbætur í fráveitumálum í sveitarfélaginu og huga þarf að framtíðarlausn í fráveitu fyrir sveitarfélagið. Stefnt er að því að unnin verði framkvæmdaáætlun um aðgerðir í fráveitumálum í sveitarfélaginu þar sem þeim aðgerðum sem ráðast skal  í á skipulagstímabilinu er forgangsraðað. Mikilvægt er að staðarval fráveitu og umfang taki tillit til umhverfisþátta s.s. lífríki sjávar og ásýndar umhverfisins. Stefnt er að því að frágangur á rotþróm við öll íbúðarhús, atvinnuhús og frístundahús í sveitarfélaginu verði samkvæmt lögum, reglugerðum og samþykktum. Upplýsingum skal komið til íbúa og fyrirtækja um mikilvægi þess að fráveita sé í lagi og skaði ekki umhverfið.

Sveitarfélagið skal sjá um tæmingu rotþróa annað hvert ár og skal losun eiga sér stað á viðurkenndum urðunarstað  fyrir seyru. Eigendur rotþróa greiðaholræsagjald til sveitarfélagsins sem stendur  undir kostnaði vegna tæmingar rotþrónna.

4.2 Úrgangur og spilliefni

Úrgangsmál eru eitt af stóru umhverfismálum samtímans og er það stefna Sveitarfélagsins Hornafjarðar að draga úr þeim úrgangi sem fer til urðunar. Hvatt verður til flokkunar úrgangs með bættri þjónustu við íbúa. Flokkunartunna verður við hvert heimili í sveitarfélaginu en þannig verður flokkun úrgangs gerð íbúum eins auðveld og kostur er.

Tryggt skal að fyrirtæki, íbúar og gestir sveitarfélagsins verði upplýstir um kosti og aðferðir við að flokka og endurnýta úrgang. Upplýsingar um grenndarstöðvar, flokkun og eyðingu sorps og úrgangs skulu gerðar aðgengilegar og veittar með fjölbreyttum hætti.

Leitað verður leiða til að draga úr notkun eiturefna við umhirðu gróðurs á vegum sveitarfélagsins. Draga skal sem mest úr almennri notkun eiturefna og sérstök áhersla er lögð á rétta meðhöndlun og förgun slíkra efna. Enn fremur skal fræða almenning um það hvernig  draga má úr notkun eiturefna, t.d. í garðyrkju og á heimilum og þeim kynnt hvaða efni séu skaðminni fyrir umhverfið og megi nota í stað ýmissa eiturefna..

Árlega er hreinsunarvika að vori sem og einn hreinsunardagur að hausti og eru íbúar þá hvattir og aðstoðaðir við að hreinsa til í sínu nærumhverfi. Sveitarfélagið mun taka þátt í hreinsunarátaki og leggja áherslu á sérstök svæði í umsjá sveitarfélagsins hverju sinni, þau hreinsuð og gerð snyrtilegri með úrbótum og viðhaldi. Opin svæði sveitarfélagsins skulu reglulega yfirfarin og hreinsuð.


4.3 Mengun í lofti, láði og legi

Almennt má segja að í sveitarfélaginu sé mengun fremur lítil. Loftgæði eru til dæmis almennt mikil. Hávaðamengun er   frá umferð og fyrirtækjum. Tryggja skal mælingar á þeim svæðum sem hávaðamengun er hvað mest og bæta úr þeim. . Stefnt skal að því að lyktarmengun sé í lágmarki og benda skal fyrirtækjum sem vinna með bræðslu að lágmarka lyktarmengun.

Sveitarfélagið mun standa fyrir kynningu, fræðslu og hvatningu til íbúa og fyrirtækja um að þeir leggi sitt af mörkum til að draga úr losun mengandi lofttegunda og efna sem geta mengað jarðveg eða vatn.  

Mikilvægt er að sveitarfélagið leggi sitt af mörkum til þess að draga úr magni gróðurhúsalofttegunda með hvetjandi aðgerðum í samgöngumálum og með því að hvetja til metnaðarfullrar   umhverfisstjórnunar mengandi fyrirtækja í bæjarfélaginu.

Vetrardagur

5. Umhverfi og atvinnulíf

Ferðaþjónusta í sveitarfélaginu er ört vaxandi atvinnuvegur og er ljóst að ágangur á náttúru svæðisins er mikill. Mikilvægt er að rannskaka þolmörk svæðisins og dreifa áningastöðum. Leita skal fyrirbyggjandi leiða til að draga úr mengun hafs og stranda svo auðlindir og lífríki verði fyrir minnstum skaða ef mengunarslys verður. Sveitarfélagið stefnir að grænu bókhaldi og hvetur fyrirtæki til að taka það upp.  


5.1 Ferðaþjónusta og umhverfi

Ferðafólki skal með upplýsingagjöf gerð grein fyrir hve viðkvæm náttúra svæðisins er og hver markmið sveitarfélagsins eru í varðveislu náttúru og umhverfis. Í gegnum fræðsluefni verður leitað eftir aðstoð ferðafólks við að ná þeim markmiðum og það beðið um að umgangast svæðið af virðingu og með hliðsjón af sjálfbærri þróun á meðan dvöl þeirra stendur. Sveitarfélagið mun stuðla að því að fylgst verði með framvindu vinsælustu ferðamannastaða svæðisins og gerðar skulu reglulegar mælingar á þolmörkum þeirra. Reynist svæði innan sveitarfélagsins samkvæmt mati sérfræðinga komin að eða yfir þolmörk skulu gerðar ráðstafanir til verndunar. Þolmörk svæðisins skulu enn fremur höfð í huga og tekið mið af þeim við markaðssetningu svæðisins. Sveitarfélagið mun leita eftir samstarfi við ferðaþjónustuaðila og upplýsa þá um markmið umhverfisstefnu sveitarfélagsins og hvetja  þá til að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi í sinni starfsemi. Skipulag og þróun svæða undir ferðaþjónustu er mikilvægur liður í átt til sjálfbærar þróunar umhverfis og náttúru.

5.2 Sjávarútvegur

Með sjávarútveg sem eina mikilvægustu atvinnugrein í sveitarfélaginu verður að teljast  mikilvægt að draga úr mengun hafs og stranda. Mengun hafs og stranda getur haft víðtæk áhrif. Leitast skal við að vernda haf og strendur svæðisins gegn mengun og athöfnum sem stofnað geta heilbrigði manna í hættu, skaðað lifandi auðlindir hafsins og raskað lífríki þess, spillt umhverfinu eða hindrað lögmæta nýtingu hafs og stranda.

Er það hagur sveitarfélagsins sem og fyrirtækja í sjávarútvegi að standa vörð um auðlindir hafsins þar sem nýting þeirra er forsenda uppvaxtar í sjávarplássum sem okkar. Það er því mikilvægt að fyrirtæki í sjávarútvegi hugi að umhverfismálum og leiti leiða til að draga úr mengun og skaðlegum umhverfisáhrifum sem kunna að vera af starfsemi þeirra.

5.3 Grænt bókhald

Grænt bókhald er skilgreint sem efnisbókhald þar sem fram koma upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi, aðallega í formi tölulegra upplýsinga.

Grænt bókhald getur nýst stofnunum sveitarfélagsins á marga vegu. Með bókhaldinu eru gefnar upplýsingar um þá þætti starfseminnar sem valda neikvæðum umhverfisáhrifum. Grænt bókhald getur til dæmis nýst stofnunum sveitarfélagsins í þeim tilgangi að koma stefnu sinni í umhverfismálum á framfæri og einnig til að draga fram það sem betur mætti fara við reksturinn. Einnig getur það nýst til þess að veita upplýsingar til almennings um starfsemi stofnana sveitarfélagsins og treyst ímynd þeirra stofnana í samfélaginu.

Grænt bókhald má einnig nota innan stofnana til að fá yfirlit yfir notkun hráefna og helstu umhverfisáhrif, sem síðar getur leitt til virkrar stýringar og takmörkunar á óæskilegum umhverfisáhrifum, sem og betri nýtingar hráefna, sparnaðar og mögulegra úrbóta í starfseminni.

Stefna skal að því að Sveitarfélagið taki upp grænt bókhald þar sem fram koma upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í starfsemi sveitarfélagsins.

Fyrirtæki á svæðinu eru hvött til að taka einnig upp grænt bókhald og þeim veittur stuðningur við þá  vinnu.

6. Umhverfi og skipulag


Náttúra Sveitafélags Hornafjarðar er stórbrotin og í henni eru fjölbreyttar náttúruperlur.  Þegar skipuleggja á svæði innan sveitafélagsins er mikilvægt að tekið sé tillit til nærliggjandi umhverfis og leitast verði við að samræma framkvæmdir, gróandi mannlíf, eðlilega byggðaþróun og varðveislu náttúrverðmæta með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

6.1 Skipulag, samgöngur og opin svæði.

Gera skal mat á umhverfisáhrifum við framkvæmdir á svæðinu þegar þurfa þykir.

Ávallt skal  leitast við að skipuleggja byggð þannig að árekstrar við umhverfið verði sem minnstir en  að aðstaða íbúa og gesta til að njóta náttúru sveitafélagsins  sé jafnframt sem best. Við endurskoðun aðalskipulags og deiliskipulaga sveitarfélagsins skal umhverfisstefna höfð að leiðarljósi. Við skipulag samgangna skal haft í huga að hvetja til umhverfisvænni ferðamáta eins og hjólreiða og göngu.

 Unnið verður áfram að fegrun opinna svæða og einnig að bættu  aðgengi að þeim svæðum.

7. Loftslag og orka

Sveitarfélagið mun leitast við að finna ódýrari orkugjafa og kynna fyrir íbúum og fyrirtækjum leiðir og kosti þess að spara orku og vatn og draga úr mengun.

Sveitarfélagið mun standa fyrir kynningu og fræðslu til íbúa og fyrirtækja um það hvernig þeir geti lagt sitt að mörkum til að draga úr losun lofttegunda sem auka gróðurhúsaáhrif.

Einnig mun sveitarfélagið stefna að því að kolefni í andrúmslofti verði bundið með meiri landgræðslu, skógrækt og breyttri landnotkun.

 Áhugaljósmyndasýning 2012

8. Sjálfbært sveitarfélag


Eitt af helstu markmiðum sveitarfélagsins í umhverfismálum er að skila umhverfi og náttúru svæðisins til komandi kynslóða í jafn góðu eða betra ástandi og það er nú. Sveitarfélagið hvetur til sjálfbærrar neyslu íbúa. Unnið verður að því að tryggja framboð svæða til matjurtaræktunar og íbúar hvattir til ræktunar.

 

8.1 Hvað getum við öll gert?

  • Flokkum og endurnýtum úrgang.
  • Slökkvum á ljósum og rafmagnstækjum sem ekki eru í notkun.
  • Nýtum okkur umhverfisvænan ferðamáta, hjólum og göngum þegar við getum.
  • Veljum vörur framleiddar í heimabyggð.
  • Veljum umhverfisvottaðar vörur.

            Hér má finna umhverfisstefnuna á pdf.

 

Umhverfisstefna Sveitarfélagsins Hornafjarðar var samþykkt á 195 fundi bæjarstórnar 12. september 2013.

 


 

TungumálÚtlit síðu: